Signý Rós Ólafsdóttir hlaut nýverið verðlaunin Outstanding woman director á kvikmyndahátíðinni Winter Film Awards International Film Festival í New York. 40 stuttmyndir börðust um hylli dómnefndar í flokknum, aðeins fjórar þeirra voru tilnefndar og það var myndin Hafið ræður sem hin tvítuga Signý Rós leikstýrði sem kom, sá og sigraði. Blaðamaður sló á þráðinn til þessarar upprennandi stjörnu íslenskrar kvikmyndagerðar sem hefur nýtt samkomubannið  vel.

„Ég var í Berlín þegar kórónuveirufaraldurinn skall á þar sem ég ætlaði að vera í nokkra mánuði en kom heim og hef nýtt tímann vel til að klára tvö handrit af stuttmyndum sem ég og Ásta vinkona mín ætlum að taka upp núna í maí og meðfram því hef ég líka verið að skrifa sjónvarpsþætti sem landsmenn munu vonandi sjá á skjánum fyrr en síðar. Svo leikstýrði ég líka tveimur stuttmyndum í byrjun þessa árs á vegum KrakkaRúv, þær eru núna í eftirvinnslu.“

,Ég fékk gæsahúð þegar nafnið mitt hljómaði í salnum og gat ekki einu sinni brosað eðlilega, það var meira svona frosið titrandi bros sem ég réð ekkert við,” segir Signý. Mynd: Úr einkasafni

Hörmulegt slys í Eyjum var kveikjan að stuttmynd

Segðu okkur frá stuttmyndinni sem þú fékkst verðlaunin fyrir, um hvað fjallar hún?

„Hafið ræður fjallar um Elvu, unga lögreglukonu, sem fer til Vestmannaeyja í afleysingar. Myndin er byggð á sönnum atburðum, mamma mín starfaði í lögreglunni í Vestmannaeyjum árið 1995 og var á vakt þegar 5 ára drengur, Alexander Örn Jónsson, drukknaði á páskadag. Hennar upplifun af þessum hörmulega sorglega atburði er rauði þráðurinn í myndinni. Við mamma höfðum samband við foreldra drengsins áður en við fórum á fullt og fengum þeirra samþykki. Við höfum átt í fallegu sambandi við þau síðan og ég vona að það endist ævina á enda því yndislegra fólk er erfitt að finna. Þann 16. apríl voru komin 25 ár síðan þetta gerðist en þann dag árið 1995 var til að byrja með rólegt að gera hjá lögreglukonunni í Eyjum.  Hún skrapp þess vegna í hádegiskaffi til vinkonu sinnar og fékk þar tilkynningu um að ekkert hefði spurst til Alexanders í dálítin tíma. Hún stökk strax af stað og keyrði um eyjuna, fólk fór svo að safnast saman til að leita að barninu en samheldnin í svona litlu samfélagi er og var sterk. Bátar voru svo sendir út til að sigla meðfram eyjunni og stuttu seinna fundust fötin hans Alexanders á klettsbrún Hamarskletts. Björgunarbátur var þá sendur á svæðið og fólk safnaðist saman á klettinum til að fylgjast með. Alexander litli fannst svo í sjónum stuttu síðar. Á þessum tíma var engin áfallahjálp, lífið hélt bara áfram; næsti dagur, næsta vakt og ný mál. Þetta hræðilega slys var ekkert rætt og þegar við unnum myndina reyndum við að fókusa á það.“

Signý segir að þeim hafi verið vel tekið í Eyjum.

„Heimamenn voru alltaf til í aðstoða okkur, lána okkur húsnæði, bíla og leika í myndinni. Við hittum og spjölluðum við fólk sem átti ólíkar sögur og upplifanir frá þessum degi; manninn sem fann fötin á klettinum, fólk sem tók þátt í að leita að Alexander, þann sem tók á móti fjölskyldunni á sjúkrahúsinu o.s.frv og fengum þannig betri innsýn í hvernig þessi hræðilegi dagur í Vestmannaeyjum var.“

Hvernig kom það til að hún ákvað að gera mynd um slysið?

Ég byrjaði í Kvikmyndaskóla Íslands haustið 2017 og ákvað strax á fyrstu önninni að gera stuttmynd um þetta. Mamma sagði mér frá þessu hörmulega slysi fyrir mörgum árum og síðan þá, má kannski segja, að ég hafi verið með þetta á heilanum. Þegar ég byrjaði svo í Kvikmyndaskólanum ákvað ég að þarna væri tækifærið til að koma sögunni í myndform. Ég fékk þá Ástu Jónínu Arnardóttur, sem sá um kvikmyndatöku og klippingu í myndinni, með mér í lið, og við hjálpuðumst að við að móta hugmyndina,” útskýrir hún og bætir því við að þær Ásta vinni mjög vel saman, hafi gert samtals sex myndir í sameiningu og að Hafið ræður sé sú stærsta en myndin var frumsýnd í Bíó Paradís í maí 2019 á útskriftarsýningu Kvikmyndaskólans.

Við tökur á myndinni. Mynd: Úr einkasafni

Átti ekki að fá að fara inn á hátíðina

Þá snúum við okkur að kvikmyndahátíðinni í New York; kom sigurinn þér í opna skjöldu?

„Já, algjörlega. Við heyrðum fyrst af tilnefningunni sama kvöld þegar við vorum að reyna að komast inn á staðinn þar sem hátíðin var haldin og þetta kom okkur mjög á óvart. Við Ásta vissum til að byrja með ekki einu sinni í hvaða flokki myndin væri tilnefnd þannig að það var mikil spenna allt kvöldið. Upplifunin að mæta á kvikmyndahátíð í New York var mjög sérstök en skemmtileg; Þetta er fyrsta erlenda hátíðin sem ég mæti á og þarna hittum við Ásta mikið af alls konar fólk í bransanum. Lokakvöldið var haldið á  þakbar á Manhattan en í Bandaríkjunum þarf maður víst að vera orðin 21 árs til að komast inn á skemmtistaði en ég er bara tvítug. Okkur var bent á að ef við myndum mæta snemma á staðinn og segjast vera að fara að borða á veitingastað sem var á sömu hæð þá gæti ég mögulega sloppið inn á hátíðina seinna um kvöldið án þess að fólk tæki eftir því,” útskýrir hún og hlær. „Við mættum hins vegar um kvöldmatarleitið þegar hátíðin var rétt að fara að hefjast, dyravörður skannaði skilríkin mín og benti mér svo pent á að stíga til hliðar og bíða. Ég ákvað þá að senda skilaboð á einn stjórnandann, sagðist vera fyrir utan niðri en kæmist ekki inn sökum aldurs. Sú svaraði með því að blóta hástöfum og sagði mér þá að myndin væri tilnefnd, ég yrði að komast inn. Svo spurði hún hvort foreldrar mínir væru ekki með mér. Stuttu seinna rétti dyravörðurinn mér bleikt armband sem merkti að ég væri undir lögaldri og svo kom kona sem fylgdi okkur inn á hátíðina. Ég er nokkuð viss um að ég hefði ekki fengið að fara inn nema bara vegna þess að ég var að fara að taka á móti verðlaunum því þarna fyrir utan voru fleiri ungmenni á mínum aldri að reyna að sannfæra dyravörðinn um að hleypa sér inn en ég var sú eina sem fékk að fara,” segir hún brosandi.

Hvernig var tilfinningin að standa á sviði og taka á móti verðlaunum fyrir útskriftarverkefni?

Mér brá mjög mikið og man bara eftir að hafa heyrt nafnið mitt lesið upp og að hafa tekið við styttunni en allt annað er í móðu. Þetta var þvílíkur heiður, við lögðum sál okkar í þessa mynd, fórnuðum öllu; svefni í margar vikur og fullt af fótboltaæfingum,” segir hún hlæjandi. „Við unnum af okkur hausinn má segja og þess vegna var mikil viðurkenning fyrir okkur að uppskera svona vel. Ekki bara fyrir okkur heldur líka alla sem að þessu verkefni komu. Við vorum með svo frábært lið með okkur, stundum líka náttúruöflin en það voru magnaðir hlutir sem áttu sér stað bæði í tökum og í kringum tökurnar. Ég fékk gæsahúð þegar nafnið mitt hljómaði í salnum og gat ekki einu sinni brosað eðlilega, það var meira svona frosið titrandi bros sem ég réð ekkert við,” segir hún og hlær innilega þegar hún rifjar upp stóru stundina í New York.

Hverju breytir það fyrir þig að fá þessi verðlaun?

„Þetta er mikil viðurkenning og það er góð tilfinning að fá verðlaun fyrir svona stórt verkefni og fyrir mig var þetta staðfesting á því að við vorum að gera þetta rétt. Það voru ekki allir sem höfðu trú á mér eða verkefninu í upphafi,  sumir sögðu þetta full umfangsmikið fyrir útskriftarmynd og svo fékk ég að heyra að það væri of mikið mál að fara til Eyja með tökulið fyrir manneskju á mínum aldri. Ég hef alveg fengið að finna fyrir því að vera ung og með athyglisbrest. Það er ár liðið síðan við vorum á leið í tökur, ég var þá 19 ára og ég fann vel að það voru ekki allir sem treystu mér fyrir þessu, sumir gáfu sér kannski að ég væri of utan við mig og réði þar af leiðandi ekki við krefjandi verkefni sem þarfnaðist einbeitingar. Þótt ég sé með athyglisbrest þá er ég líka þannig að ef ég tek að mér verkefni þá geri ég það 100%. Ég fer í svokallaðan „ofurfocus” og þá kemst ekkert annað að hjá mér en verkefnið sem ég er að vinna, það má alveg segja að ég fái það á heilann; ég reyni að nýta umhverfið, er alltaf með augun opin og hef endalausa orku. En ég hef því miður fundið fyrir því að fólk komi fram við mig á vissan hátt einfaldlega vegna þess að ég er með ADHD greiningu og ég tel það stafa af vissri vanþekkingu eða fordómum. Við sem erum með ADHD erum ekkert vanhæfari í verkefnin þótt við veljum okkur kannski aðrar leiðir til að vinna þau og förum út fyrir kassann. Væri ekki skemmtilegra að sjá ADHD sem kost frekar en galla og tala jákvætt um athyglisbrest og ofvirkni? Sýna fólki og börnum með þessa greiningu meiri skilning og virðingu. Ég allavega elska athyglisbrestinn minn því ég hef lært að nota hann rétt og reyni að velja mér aðstæður þar sem hann nýtist mér. Það er skiljanlegt að krakkar droppi úr framhaldsskóla þegar kröfurnar eru að allir eigi að passa í sama mótið.  Samræmdu prófin eru gott dæmi; ætlast er til þess að allir standi sig vel og fái góðar einkunnir. Það meikar ekki sens, það geta ekki allir verið góðir í að leysa jöfnur eða greina ljóð. Á tímabili hélt ég að það væri eitthvað mikið að mér. Í framhaldsskóla var ég að falla í öllum fögum, samræmdu prófin voru martröð og það gekk ekkert upp. Ég gafst upp á þessu hefðbundna skólakerfi og sem betur fer fann ég mína hillu í lífinu í kjölfarið en það eru svo margir krakkar í sömu sporum sem gera það ekki. Mér finnst mikilvægara að kenna krökkum á lífið, fjölbreytileika samfélagsins og að bera virðingu fyrir fólki frekar en að reyna að troða öllum í sama boxið og ætlast svo til þess að fá sömu útkomuna,” útskýrir hún einlæg og augljóst að þetta er henni hjartans mál enda búin að upplifa vanmátt og vanlíðan samhliða sínu ADHD.

,Á þessum tíma var engin áfallahjálp, lífið hélt bara áfram; næsti dagur, næsta vakt og ný mál. Þetta hræðilega slys var ekkert rætt og þegar við unnum myndina reyndum við að fókusa á það.” / Mynd: Úr einkasafni

„Ég er með endalausar hugmyndir og svo margar sögur í hausnum og ætla að nota næstu mánuði vel til að koma þessum hugmyndum í eitthvað form.” Hún segist aðallega fá hugmyndir úr umhverfinu og frá fólki sem hún hittir og spjallar við. ,,Ég tek sérstaklega vel eftir karaktereinkennum, hvernig fólk klæðir sig, hreyfir sig og beitir röddinni. Oft fæ ég líka hugmyndir út frá sögum sem fólk segir mér, ég veit ekkert skemmtilegra en sögur af fólki. Ef maður hlustar vel þá fær maður oft hugmyndir. Ég les líka oft minningargreinar í blöðunum, þar les maður oft um ótrúlega magnaða karaktera þar sem hver á sína sögu.”

Blaðamaður spyr Signýju Rós hver draumurinn sé í hennar huga? „Óskarinn, engin spurning,” svarar hún brosandi og hefur greinilega tekið stefnuna beint á toppinn í bransanum.