Nú nálgast Hrekkjavakan og þó hún verði með óhefðbundnu sniði í ár munu eflaust margir gera sér glaðan dag, fá sér aðeins meira nammi en vanalega og skemmta sér konunglega, í hæfilegri fjarlægð frá öðru fólki.

Fréttanetið fór á stúfana og talaði við nokkra íslenska tannlækna um hvert versta nammið fyrir tennurnar væri. Að sama skapi ákváðum við að spyrja hvaða nammi færi best með tennurnar.

Það stóð ekki á svörunum hjá tannlæknunum, en Fréttanetið varar við því að svör þeirra gætu kannski komið illa við þá sem ætla að fara alla leið í Hrekkjavökugleðinni.

Versta nammið

Allt sem er klístrað

Ef það er erfitt að borða nammið og það festist ítrekað í tönnunum er ekki gott að bjóða gómnum upp á það. Því lengur sem nammið klístrast við tennurnar því meiri tíma fá bakteríur til að sýkja þær. Karamellur eru til dæmis mjög slæmar fyrir tennurnar þar sem leyfar af þeim geta legið lengi í skorum tannanna.

Brjóstsykur og sleikjó

Í raun má það sama segja um brjóstsykur og sleikjó því leifar af svo hörðu nammi geta laumað sér inn á milli tanna og valdið skemmdum.

Hlaup

Hlaup er mjúkt en það er hins vegar mikil sýra í því sem er alls ekki gott fyrir tennurnar. Sýran fer mjög illa með glerjunginn og getur aldið skemmdum.

Súrt nammi

Sama gildir og með hlaupið – sýran er ekki besti vinur tannanna.

Besta nammið

Dökkt súkkulaði

Það er minni sykur í dökku súkkulaði en mjólkursúkkulaði og því er það betra fyrir tennurnar. Súkkulaði skolast fyrr af tönnunum en til dæmis klístrað og súrt nammi og því er best að halda sig bara í súkkulaðinu.

Súkkulaði með kexi

Hér er um að ræða nammi eins og Maltesers og Kit Kat, en slíkt nammi festist ekki í tönnum og er því prýðisgott ef á að gera sér glaðan dag.

Sykurlaust nammi

Sykur er eitur fyrir tennurnar og því verða þær glaðar ef honum er útrýmt í nammiáti.