Eurovision-sérfræðingarnir Deban Aderemi og Suzanne Adams kryfja framlag Íslands til Eurovision, 10 Years með Daða og Gagnamagninu, í nýju myndbandi á YouTube.

Það er vægt til orða tekið að segja að bæði Deban og Suzanne elski lagið. Deban er til að mynda mjög ánægður með að gengið sé enn þá að vinna með sams konar búninga og í laginu Think About Things, sem átti að vera framlag Íslands til Eurovision í fyrra en keppninni var aflýst vegna heimsfaraldurs COVID-19.

„Hristu þessar mjaðmir Daði!“ hrópar Deban til að mynda og bætir við: „Ég lifi fyrir þetta lag.“

Suzanne myndi engu breyta við lagið.

„Þetta eldist eins og vín. Hágæða vín,“ segir hún. „Vel gert Daði og teymi.“

Deban er hæstánægður með boðskap lagsins og segir ánægjulegt að sjá að Daði sé fjölskyldumaður sem notar gildi fjölskyldunnar ekki sem myndlíkingu um eitthvað allt annað.

„Það er hreinskilni í skilaboðunum og ég dregst inn í það að fagna sambandi Daða og Árnýjar.“

Þau Deban og Suzanne eru bæði sammála um að 10 Years hafi ekki jafn sterk áhrif á þau og lagið í fyrra, Think About Things, sem fór sigurför um heiminn.

„Ég elska þetta. Ég fæ samt ekki sömu viðbrögð og í fyrra, líklegast vegna þess að þessi stíll var nýr fyrir mér í fyrra,“ segir Suzanne og bætir við: „Mér leiðist alls ekki yfir íslenska framlaginu.“

Deban segir erfitt fyrir Daða að reyna að apa eftir vinsældum Think About Things og er ánægður með að hann reyni það ekki. En mun 10 Years bera sigur úr býtum í Eurovision?

„Nei, ég efa það,“ segir Deban. „Þetta er samt lagt sem Ísland getur verið stolt af.“

Bæði Suzanne og Deban eru hins vegar sannfærð um að lagið komist upp úr undanriðlinum.

Íslandi var spáð efstu sætunum í Eurovision áður en Daði frumflutti lagið sitt síðastliðinn laugardag. Nú er laginu spáð áttunda sætinu samkvæmt síðunni Eurovision World. Svissneska laginu Tout l’univers er spáð sigri.