Óhætt er að halda því fram að bílaþvottastöðvarupplifunin sé svipuð um allan heim. Þú borgar peninginn, passar upp á að gluggarnir séu allir lokaðir svo þú verðir ekki rennandi. Svo koma burstarnir og sprauturnar og dansa sinn dans þangað til ferlinu er lokið og þú keyrir burt í skínandi hreina farartækinu þínu.

í Kowagarasetai Obakeyashiki-þvottastöðinni í Tokyo virka hlutirnir hins vegar ekki alveg þannig. Hér keyrir þú ofan í koldimman bílastæðakjallara, blóð skvettist á gluggana, uppvakningar klóra í hurðarnar, og djöflar og forynjur vagga bílnum.

Að upplifuninni lokinni er svo bíllinn auðvitað hreinsaður almennilega, en þó er fólk varað við í smáa letrinu á heimasíðunni, „Við getum ekki náð hverjum einasta blóðdropa. Bíllinn verður nógu hreinn til að keyra úti á götu.“ Vel þess virði að hafa í huga, sérstaklega ef íhugað er að fara í dýrari „extra blóðuga“ pakkann.

Þessi hrollvekjandi bílaþvottur er á vegum hryllingsframleiðslufyrirtækisins Kowagarasetai, og er hugmyndin tilkomin vegna Covid-19 faraldursins, að sögn stofnanda fyrirtækisins, Kenta Iwana.

„Sökum vírussins þá vissi ég að það yrði engin leið fyrir okkur að vera með venjulegt draugahús, með fólk öskrandi í litlu þröngu rými,“ sagði hann. „Þegar ég las að bílabíó væru að komast aftur í tísku, þá var það mitt „a-ha“ augnablik.“