Lífshlaup söngkonunnar Britney Spears hefur verið ansi skrautlegt, en hún er oft kölluð poppprinsessan sökum gríðarlegrar velgengni í heimi popptónlistar.

Þær fregnir bárust af Britney í vikunni að hún hafi leitað til dómstóla í þeirri tilraun að hindra að faðir hennar, James Spears, haldi áfram að verða lögráðamaður hennar. James hefur sinnt því hlutverki síðustu tólf árin eða svo, en Britney sækist ekki eftir sjálfstæði heldur vill fá annan lögráðamann í stað föður síns.

En hvernig æxluðust málin þannig að Britney þurfti lögráðamann sem ræður yfir öllum hennar fjárhag og þarf að gefa samþykki sitt ef hún vill til dæmis giftast eða eignast börn? Kíkjum aðeins á sögu poppprinsessunnar.

„Hit me baby…“

Britney er fædd í desember árið 1981 og verður því 39 á árinu. Þegar hún var aðeins átta ára gömul fór hún í prufu fyrir hinn vinsæla Mikka Mús klúbb. Hún þótti of ung fyrir verkefnið en þarna komst Britney á bragðið. Hún fór í listnám og loks árið 1992 komst hún inn í Mikka Mús klúbbinn eftirsótta.

Mikka Mús klúbburinn. Britney er í neðri röð til hægri. Við hlið hennar er Ryan Gosling og fyrir ofan hana er Christina Aguilera.

Þegar að klúbburinn var tekinn af dagskrá skrifaði Britney undir plötusamning við Jive Records árið 1997, á sextánda aldursári. Fyrsta smáskífan, Baby One More Time, kom út í október árið 1998 og það er vægt til orða tekið að segja að lagið hafi verið smellur því það gerði allt vitlaust.

Fyrsta plata Britney kom út árið 1999 og sama ár sat hún fyrir á forsíðu Rolling Stone. Forsíðumyndin þótti ögrandi og var söngkonan harðlega gagnrýnd fyrir að blanda barnslegu sakleysi við kynþokka. Voru einhverjir hópar sem báðu neytendur um að kaupa ekki plötuna. Stuttu áður en myndin birtist hafði Britney látið hafa eftir sér að hún yrði hrein mey þar til hún gifti sig.

Foxillur Timberlake

Í fyrrnefndum Mikka Mús klúbb fann Britney ástina í örmum hjartaknúsarans Justin Timberlake. Þau byrjuðu saman árið 1999 en þremur árum síðar var gamanið búið. Oft hefur því verið haldið fram að smellur Justins, Cry Me a River hafi verið saminn um Britney.

Britney og Justin.

„Ég hef verið hafður að háði og spotti. Ég hef verið foxillur. Tilfinningar mínar voru það sterkar að ég varð að semja lagið,“ skrifar Justin í endurminningum sínum Hindsight & All the Things I Can’t See in Front of Me sem kom út árið 2018

Justin staðfestir hins vegar ekki í bókinni að lagið sé um Britney, en í viðtali árið 2011 við Huffington Post sagðist hann hafa samið lagið eftir rifrildi við Britney.

Ástarlífið í beinni

Ímynd söngkonunar varð sífellt kynþokkafyllri og sprengdi hún alla skala þegar hún opnaði MTV Video Music-verðlaunin með Christinu Aguilera árið 2003. Þær stöllur fluttu lagið Like a Virgin en í miðju kafi kom Madonna á sviðið og kyssti Britney hana innilega. Þetta athæfi vakti gríðarlega athygli.

Ári síðar náði Britney aftur athygli alheimsins þegar hún gekk að eiga æskuvin sinn Jason Alexander í Las Vegas. Aðeins 55 klukkustundum síðar sótti Britney um ógildingu á hjónabandinu og sagðist ekki hafa skilið fyllilega hvað hún væri að koma sér út í.

Britney og Jason.

Í kjölfarið byrjaði Britney að deita dansarann Kevin Federline. Þau trúlofuðu sig þremur mánuðum eftir að sambandið hófst, en fylgst var með ástarlífinu í raunveruleikaþættinum Britney & Kevin: Chaotic. Þau gengu í það heilaga í september árið 2004. Minna en ári síðar eignuðust þau soninn Sean Preston.

Britney og Kevin.

„Ég var skíthrædd“

Enn og aftur var athæfi söngkonunnar umdeilt í febrúar árið 2006 þegar að myndir birtust af henni í bíl sínum þar sem hún hélt á Sean í kjöltu sinni á meðan hún stýrði bíl á ferð. Myndirnar vöktu óhug Britney játaði mistök sín og kenndi paparössum um allt saman.

„Ég var skíthrædd við það á þessum tíma að aðgangsharðir paparassar myndu setja líf mitt og barns míns í hættu,“ sagði Britney í yfirlýsingu á sínum tíma. „Ég gerði það sem þurfti til að bjarga barninu og mér, en paparassarnir héldu áfram að elta okkur. Ég elska barnið mitt og myndi gera allt til að vernda það.“

Britney og Kevin eignuðust annan son, Jayden, í september árið 2006. Þremur mánuðum síðar skildu hjónin. Í kjölfarið stundaði Britney djammið af kappi og sást oft með partípíunum Paris Hilton og Lindsay Lohan. Mikið var fjallað um að þessi nýbakaða móðir væri meira úti á lífinu en heima hjá sér.

Partípíurnar.

Niðurtúrinn frægi

Það var svo árið 2007 að niðurtúr Britney var í algleymingi. Ljósmyndarar náðu myndum af henni raka af hár sitt og stuttu síðar réðst hún á bíl ljósmyndara með regnhlíf að vopni. Fíknivandi, geðvandamál og forræðisdeila við Kevin var sögð orsaka þessa hegðun.

Britney missir vitið.

Í janúar árið 2008 neitaði Britney að gefa frá sér forræði yfir sonum sínum til Kevins. Hún var lögð inn á Cedars-Sinai sjúkrahúsið eftir að lögregla mætti heim til hennar og sagði hana vera undir áhrifum. Næsta dag fékk Kevin fullt forræði yfir drengjunum og Britney nauðungavistuð á geðdeild. Hún missti þar bæði sjálfræði og fjárræði. Þá var James Spears, faðir hennar, gerður að lögráðamanni dóttur sinnar. Britney var útskrifuð af geðdeild fimm dögum síðar. Í lok árs 2008 gaf Britney út sjöttu plötuna sína, Circus, og glöddust aðdáendur mjög. Í kjölfarið fór hún í tónleikaferðalag – hennar vinsælasta og arðbærasta á ferlinum.

Britney tilkynnti það árið 2013 að hún hefði landað svokölluðu „residency“ í Las Vegas, en um er að ræða tónleikaröð í borginni. Fyrstu tónleikarnir voru haldnir árið 2013 og þeir síðustu árið 2017. Sökum velgengni tónleikaraðarinnar vildi Kevin fá hærra meðlag og þá komst Britney aftur í fréttirnar. Þau náðu samkomulagi í september árið 2018 og samþykkti Britney að borga honum aukalega fimmtán þúsund dollara á mánuði, eða tæplega 1,8 milljónir króna.

#FreeBritney

Á síðasta ári var Britney lögð inn á geðheilbrigðisstofnun vegna andlegs álags sem hefur fylgt veikindum föður hennar, en hann gekkst undir skurðaðgerð vegna rifins ristils. Á þessum tíma hætti hann tímabundið að vera lögráðamaður dóttur sinnar, en sögusagnir fóru fljótt á kreik um að fjölskylda söngkonunnar héldi henni gegn vilja sínum á geðdeild. Aðdáendur voru sannfærðir um að mikið væri til í þessum sögum og fór myllumerkið #FreeBritney eins og eldur um sinu á internetinu. Britney fann sig knúna til að svara þessum orðrómi í myndbandi á Instagram.

Feðginin.

„Fjölskylda mín hefur verið undir miklu stressi og þjáist af miklum kvíða undanfarið þannig að ég þurfti tíma til að takast á við það. En ekki hafa áhyggjur, ég sný aftur fljótt,“ sagði hún meðal annars og hélt áfram.

„Aðstæður mínar eru einstakar en ég lofa að ég er að gera mitt besta. Þið vitið þetta kannski ekki um mig en ég er sterk og ég stend með sjálfri mér!“

View this post on Instagram

I wanted to say hi, because things that are being said have just gotten out of control!!! Wow!!! There’s rumors, death threats to my family and my team, and just so many things crazy things being said. I am trying to take a moment for myself, but everything that’s happening is just making it harder for me. Don’t believe everything you read and hear. These fake emails everywhere were crafted by Sam Lutfi years ago… I did not write them. He was pretending to be me and communicating with my team with a fake email address. My situation is unique, but I promise I’m doing what’s best at this moment 🌸🌸🌸 You may not know this about me, but I am strong, and stand up for what I want! Your love and dedication is amazing, but what I need right now is a little bit of privacy to deal with all the hard things that life is throwing my way. If you could do that, I would be forever grateful. Love you ❤️❤️❤️

A post shared by Britney Spears (@britneyspears) on

#FreeBritney hreyfingin fór aftur á flug á TikTok í júlí á þessu ári. Þá sagði bróðir Britney, Bryan Spears, að söngkonan hefði lengi viljað losna við lögráðamann, en samkvæmt nýjum dómsskjölum vill Britney halda áfram að vera með lögráðamann því hún telur það hafa bjargað sér frá glötun. Jodi Montgomery kom inn í hlutverkið þegar að faðir söngkonunnar veiktist og vill Britney að Jodi haldi áfram að hugsa um sín mál. Hvernig málið fer verður tíminn að leiða í ljós en eitt er víst – Britney hefur gengið í gegnum miklar hæðir og lægðir á sínum ferli en er hvergi bangin.