Margir hafa eflaust tekið eftir gnægt af svörtum ferningum á Instagram nú í morgunsárið. Þessir ferningar eru merktir með kassamerkinu #blackouttuesday. Er um að ræða alþjóðlega hreyfingu sem hefur sprottið upp eftir að lögreglumaður þrengdi að hálsi óbreytts borgara, George Floyd, með þeim afleiðingum að hann lést.

View this post on Instagram

Black Lives Matter #blackouttuesday

A post shared by Gorillaz (@gorillaz) on

Þetta nýjasta dæmi um lögregluofbeldi í garð þeldökkra í Bandaríkjunum hefur valdið miklum usla vestan hafs, eins og hefur líklegast ekki farið framhjá neinum. Nú færir byltingin sig yfir á samfélagsmiðla með fyrrgreindum svörtum ferningum. Þessi einfalda leið til mótmæla á að tjá einingu og stuðning við Black Lives Matter-mótmælin sem hafa verið í gangi um gervöll Bandaríkin síðustu daga.

Það er leikur einn að vera með í mótmælunum. Notendur einfaldlega birta svartan ferning sem mynd á vegg sínum og birta síðan ekki fleiri myndir á miðlinum það sem eftir lifir dags. Með svarta ferningnum mega notendur birta stuðningsskilaboð að eigin vali. Ber dagurinn í dag nafnið Blackout Tuesday, eða Þriðjudagsmyrkvi.

Þessi dagur á uppruna sinn í tónlistarsenunni og hófst með því að nokkrir tónlistarmenn hétu því að gefa ekki út nýtt efni í dag eða birta efni á samfélagsmiðlum.

Þá er fólk einnig hvatt til að sýna samstöðu með því að kaupa ekkert né selja í dag, en tilgangurinn á bak við þessa þögn, sem er ansi ærandi, er að fólk eigi að gefa sér þennan dag til að íhuga hvernig er best að berjast gegn kynþáttafordómum.