Í tilefni af Degi Jarðar 22. apríl efndi Earth Observatory, ein af undirstofnunum NASA, til almennra kosninga á margverðlaunaðri vefsíðu sinni um hver væri besta mynd sem tekin hefði verið af Jörðinni, eða hluta hennar, frá upphafi. Um var að ræða myndir sem hafa verið teknar fyrir utan lofthjúp Jarðar.

Fór kosningin þannig fram að fyrst tilnefndu starfsmenn stofnunarinnar 32 myndir af þúsundum í keppnina. Þessar 32 myndir fóru síðan hver af annarri í daglega kosningu, tvær og tvær í einu, þar sem önnur sigraði óhjákvæmilega og fór áfram, en hin þurfti að bíta í hið súra. Litlar líkur voru á jafnteflum enda greiddu meira en 50 þúsund manns atkvæði í hvert sinn.

Hélt svo áfram í nokkra daga uns að því kom að fjórar myndir, sem sigrað höfðu alla keppinauta fram að því, þurftu nú að keppa um fjögur efstu sætin.

Hér fyrir neðan sést hvernig fór og þar fyrir neðan eru myndir sem fá heiðursbirtingu.

3.-4. sæti: Jörðin, séð frá Satúrnus. Þessi stórkostlega mynd er samsett úr 165 myndum sem geimfarið Cassini tók á þremur tímum 15. september 2006 þegar Satúrnus skyggði á sólina og má sjá geisla hennar í kring. Ef rýnt er í myndina sést Jörðin sem örlítill punktur rétt fyrir utan ysta bjarta hringinn vinstra megin. Til hægðarauka fyrir þá sem eru ekki með gleraugun fylgir með stækkuð mynd af svæðinu sem Jörðin er á. Nánari upplýsingar um þessa mynd eru hér.

Athugið að þessa mynd, þá efri altso, er alveg kjörið að hala niður, prenta út í sem mestum gæðum, ramma fallega inn og hengja upp í forstofunni. Það má.

3.-4. sæti (það var ekki keppt um bronsverðlaun): Þessar tvær myndir teljast sem ein af þeirri skiljanlegu ástæðu að annars væri hætta á að hátt í helmingi Jarðarbúa þætti sér misboðið. Hún (eða þær) er samsett úr nokkuð mörgum ljósmyndum sem voru teknar af ýmsum gervitunglum og geimflaugum á tímabilinu 1994 til 2004. Okkur skilst að hún hafi fyrst verið birt 9. október 2007 en nánari upplýsingar um tilurð hennar má fá hér.

2. sæti: Þessi glæsilega mynd þurfti að sætta sig við annað sætið í úrslitakosningunni með 33.8% greiddra atkvæða en hún var jafnframt ein nýjasta myndin í keppninni. Hún sýnir nýhafið gos í Raikoke-eyju, norðarlega í Kuril-eyjaklasalínunni sem liggur á milli Japans og rússneska Kamtsjatka-skagans. Gígurinn var 700 metrar í þvermál, eða nánast öll eyjan, og þeytti ösku og gasi upp í allt að 43 þúsund feta hæð.

Myndin var tekin af geimförum í Alþjóðlegu geimstöðinni að morgni gossins, 22. júní 2019, og sýnir hápunkt þess, en verulega hafði dregið úr gosvirkninni strax þetta sama kvöld. Nánari upplýsingar um myndina og gosið má sjá hér – auk fleiri mynda af því

1. sæti: Sigurvegari varð svo þessi magnaða mynd sem hlaut 66,2% atkvæðanna í úrslitakosningunni. Við fyrstu sýn virðist þetta vera verk einhvers nýlistamannsins, en er í raun og veru ein stök ljósmynd, tekin af Landsat 1-gervitunglinu 17. janúar 2001.

Myndin sýnir hvernig straumar hafsins og sjávarföll við Bahama-eyjar hafa mótað sanda og sjávargróður í munstur, svona svipað og vindar gera við sandinn í Sahara-eyðimörkinni. Nánari upplýsingar um myndina er að finna hér.

Og þá eru það heiðursbirtingar fjögurra mynda sem komust ekki í undanúrslitin en hefðu alveg átt heima þar.

Sú fyrsta er tekin yfir Íslandi, nánar tiltekið 6. september 2014 þegar eldgosið í Holuhrauni, norðan Dyngjujökuls og sunnan við Öskju, hafði staðið í viku og rúmlega það ef sýnishornið 29. ágúst er talið með, en þá gaus í hrauninu skamma stund. Það litla gos reyndist svo undanfari gossins sem hófst fyrir alvöru 31. ágúst.

Myndina tók Landsat 7-gervitunglið en nánari upplýsingar má finna hér ásamt stækkaðri mynd af gossprungunni og hrauntungunni.

Þessi mynd er samsett úr myndum sem teknar voru á fimm klukkustundum frá DSCOVR-könnunarfarinu 16. júlí 2015, en DSCOVR er á sporbaug um Jörðu í um 1,6 milljón km fjarlægð og því vel utan við sporbaug tunglsins sem er í um 384.400 km fjarlægð frá Jörðu að meðaltali.

Hér sést vel „hin dökka hlið“ tunglsins sem annars sést aldrei frá Jörðu og menn litu ekki augum fyrr en árið 1959 þegar sovéska Luna 3-geimfarið náði fyrstu myndunum af henni. Nánari upplýsingar um þessa mögnuðu mynd eru hér.

Þessi mynd var tekin úr Alþjóðlegu geimstöðinni 12. janúar 2015 yfir Suður-Indlandshafi, austan við Madagaskar. Hún sýnir auga hitabeltisstormsins Bansi sem þarna var að sækja í sig veðrið og varð að fjórða-stigs fellibyl áður en hann slakaði á aftur. Ljósin í auganu eru eldingar.

Á myndinni má einnig sjá hve lofthjúpur Jarðar er örþunnur hlutfallslega en hann er frumundirstaða alls lífs á Jörðu. Sætir það því furðu að sumt fólk sér ekkert að því að hann sé skemmdur – eða spáir lítið í það. Nánari upplýsingar um þessa mynd má finna hér.

Síðasta myndin sem við birtum í þessari stuttu grein er af vatnsmestu vatnamótum heims, þar sem stórfljótin Rio Solimões (sem er reyndar oft nefnt sem efri hluti Amazon-fljóts) og Rio Negro mætast og verða að neðri hluta Amazon-fljótsins.

Þessi fljót eru hvort fyrir sig á meðal vatnsmestu fljóta heims og á regntímanum hækkar yfirborð þeirra jafnvel um tíu metra á þessu svæði. Má því segja að vatnamótin séu Mekka allra vatnamælingamanna. Borgin vestan við fundarstað þeirra er Manaus sem er sjöunda stærsta borg Brasilíu með um 2,4 milljónir íbúa. Þessa mynd má skoða nánar með því að smella hér.

———————

Þeir og þær sem vilja kynna sér allar hinar 24 myndirnar í keppninni og hvernig kosningarnar þróuðust geta smellt hér.

Á bloggsíðu Earth Observatory má einnig sjá nýjar svona myndir á hverjum degi og drekka í sig alls kyns fjölbreyttan fróðleik um Jörðina okkar.

Sjá einnig: Júpíter í nýju ljósi.

Allar myndir birtar með leyfi NASA.