Eins og mestallri heimsbyggð er kunnugt urðu þriðjudaginn 4. ágúst tvær sprengingar í Beirút, höfuðborg Líbanon. Þó nákvæm orsök og atburðarás séu enn óstaðfestar er nú helst talið að eldur hafi komið upp út frá logsuðuóhappi í vöruhúsi sem hafði að geyma 30 til 40 poka af flugeldum. Á það að hafa orsakað fyrstu sprenginguna og eldurinn í kjölfarið borist í nálægt vöruhús, sem hafði að geyma 2750 tonn af ammóníumnítrati. Olli það svo hinni gríðarstóru seinni sprengingu. En hvernig getum við áttað okkur á raunverulegu umfangi hennar?

Byrjum hér: sprengingin heyrðist á Kýpur, 240 km frá Beirút. Ef við gefum okkur að sambærileg sprenging hefði átt sér stað í Perlunni í Reykjavík, þá hefði hún heyrst – og höggbylgjan að einhverju leyti fundist – á öllu vesturlandi og mögulega náð alla leið til Akureyrar í norðaustri.

Hvað skaðann varðar er hægt að gefa sér þrjá afmarkaða radíusa þar sem dregur úr áhrifum eftir því sem fjarlægð frá sprengingunni eykst – 1 km, 5 km og 10 km. Skoðum þá hvern fyrir sig.

 

1 km

Eins og gefur augaleið er eyðileggingin langtum skæðust innan kílómeters radíuss frá sprengingunni. Ef við höldum áfram að gefa okkur að þetta hefði gerst í Perlunni yrðu því allt syðra Hlíðahverfi og syðri Norðurmýrin fyrir nánast ólýsanlegum skemmdum, ásamt nýbyggingahverfinu sem jafnan er kallað 102 Reykjavík. Hurðir myndu fjúka af byggingum, veggir hrynja, bílar kollvarpast og gler splundrast. 40 metra djúpur gígur, 125 metrar að ummáli, myndi vera eftir þar sem Perlan áður stóð. Strandlínan í Nauthólsvík væri gereyðilögð.

 

5 km

I 5 kílómetra radíus við sprenginguna yrðu miklar skemmdir á byggingum, bílum og öðrum samfélagsinnviðum svo sem vegum, strætisvagnaskýlum, almenningsskiltum, umferðarljósum og ljósastaurum, bæði vegna styrks höggbylgjunnar svona nálægt uppruna sprengingarinnar og vegna fljúgandi (oft brennandi) braks sem myndi þyrlast í allar áttir og lenda á hverju sem fyrir yrði.

Miðbær, Vesturbær, Seltjarnarnes, Fossvogur, Laugardalur og Kópavogur myndu meðal annars verða fyrir gríðarlegum skemmdum. Flest hús á svæðinu myndu enn standa, en tjónið myndi hlaupa á milljörðum króna.

 

10 km

Þegar hér er komið sögu nær radíusinn yfir allan Kópavog, allan Garðabæ og um það bil hálfan Hafnarfjörð, en verður það þó að segjast að samanburðarlíkanið okkar er á þessu stigi tekið að skekkjast sökum misjafnra landfræðilegra þátta í borgunum tveimur, þá sérstaklega breytilegum hæðum og dölum. 10 kílómetrar er lengsta vegalengd frá sprengingunni í Beirút þar sem tilkynnt var um tjón á byggingu, og þegar þangað er komið er mestmegnis höggbylgjunni um að kenna, sem er samt sem áður – jafnvel í þessari fjarlægð – nógu öflug til að brjóta rúður í byggingum.

Þó svo hér fyrir ofan hafi einungis verið fjallað um eignar- og fjárhagstjón er mannlegi harmleikurinn vitanlega ómælanlegur. Í Beirút hafa nú 220 dauðsföll verið staðfest, yfir 100 einstaklinga er enn saknað, yfir 6000 eru særð og ríflega 300.000 manneskjur eru taldar heimilislausar.

6. ágúst hefur verið yfirlýstur opinber þjóðarsorgardagur í Líbanon. Erfitt er að gera sér í hugarlund hversu mikil skelfing og óvissa ríkir, þar sem þjóðin var í ofanálag að kljást við bæði efnahagskreppu og afleiðingar Covid-19 faraldursins þegar þessar hörmungar áttu sér stað.

Vonandi hefur þessi stuttlega lesning þó farið einhverja leið að því að setja í samhengi hversu víðtæk eyðileggingin var og hversu sárlega Líbanon þarf á aðstoð heimsins að halda. Ef þú vilt leggja lið, skoðaðu endilega tenglana hér að neðan:

Rauði Krossinn Líbanon:

https://supportlrc.app/donate/

UNICEF:

https://www.unicefusa.org/

Save The Children:

https://www.savethechildren.org/us/what-we-do/where-we-work/greater-middle-east-eurasia/lebanon

Hópfjármögnun Impact Lebanon:

https://www.justgiving.com/crowdfunding/lebanon-relief?utm_term=PYp7gXzyD

Samtökin Humanity & Inclusion:

https://www.hi-us.org/beirut_explosion