Það getur verið agalega notaleg tilfinning að setja sér markmið. Til dæmis algengt þegar nýtt ár gengur í garð að hugsa með sér; jæja nú er komið að því. Ætla lesa tuttugu bækur á árinu, vera komin í brjálæðislega gott hlaupaform í ágúst og byrja leggja fyrir fellhýsinu sem ég ætla að kaupa í sumar. Einmitt þarna, þegar klukkan slær tólf á miðnætti og nýtt ár gengur í garð, þá er ég komin í fellhýsið, í brjálæðislega góðu hlaupaformi og er að lesa bók númer tólf á árinu.

Svo rennur ágúst mánuður upp og ég er búin að lesa þrjár bækur er í núll hlaupaformi og ekkert fellihýsi. Af hverju er svona auðvelt að ætla sér stórkostlega hluti aðfaranótt fyrsta janúar en í ágúst er ekkert breytt?

Í raun ættum við ekki að setja okkur markmið heldur venjur. Við byrjum nefnilega á vitlausum enda. Markmið er í raun eitthvað sem endurspeglar daglegar venjur. Venjur eru lausn á verkefni sem þarf að leysa. Ef verkefnið er að létta sig um nokkur auka kíló þá felst lausnin í að borða hollt daglega og hreyfa sig. Líkamlegt ástand er afleiðing daglegra venja og niðurstaðan í samræmi við það.

Afleiðing þeirra venju sem þú velur daglega, alveg sjálf eða sjálfur, er í raun þitt markmið. En í stað þess að setja fókusinn á markmiðið þá ætti hann að vera á litlu hlutina sem þú gerir daglega, sem þú velur daglega.

Allir geta sett sér markmið en færri ná sínum markmiðum. Sá sem er alveg ákveðinn í að losa sig við nokkur auka kíló fer í hádegismat, langar miklu frekar í hamborgara og franskar en salat, en hugsar með sér; æjjji einn borgari breytir litlu, sem er alveg rétt. Hann breytir ekki neinu. Eftir hádegi er spegilmyndin nákvæmlega sú sama og fyrir hádegi. En ef fáum okkur borgara í hádeginu, þrisvar í viku, í heilt ár, þá er spegilmyndin eftir því.

Málið er að ef þú setur allan fókusinn á markmiðið í stað þess að hugsa um daglegar venjur, þá eru miklar líkur að þú náir ekki þínu markmiði. Með því hugsa alltaf um loka niðurstöðuna þá missir þú sjónar á því sem skilar þér í raun því markmiði sem þú stefnir að. Því við eigum til að hugsa með okkur, æjjji einn borgari breytir engu. Ég geng frá þessu seinna. Geri þetta á eftir. Næst.

Það ætlar sér enginn að velja slæma venju og ef þú endurskoðar ekki reglulega venjur þínar þá eru allar líkur á að þú viðhaldir slæmum venjum. Við þurfum stöðugt að endurskoða venjur okkar, uppfæra okkur alveg eins og símann. Það leggur enginn af stað í keppni til þess að tapa. Allir þátttakendur hafa sama markmið, að vinna. En sá sem leggur mest á sig áður en keppnin hefst og skoðar hvar hann eða hún getur bætt sig, vinnur keppnina.

Ef það er alltaf óregla á skrifborðinu þínu þá er það afleiðing þess að þú gengur ekki frá eftir þig. Ef það eru föt út um allt í svefnherberginu þínu, þá er það vegna þess að þú gengur illa um. Þú getur tekið til áður en þú færð gesti í matarboð og gert fínt en þú ert samt alveg sami sóðinn og áður en gestirnir komu. Auðvitað gera allir sér grein fyrir að borða óhollt og hreyfa sig ekki skilar ákveðnu líkamlegu ástandi. En málið er að þessir litlu hlutir vaxa okkur svo oft í augum. Vegna þess að fókusinn er alltaf á lokasviðsmyndina í stað þess að hugsa um ferlið.

Markmið er nefnilega ekki eiginlegt form né fasti heldur afleiðing venju og niðurstaða í samræmi við það.

www.saraodds.is