Kannski ekki fallegasti réttur sem ég hef eldað, en á köldu og hryssingslegu vetrarkvöldi gerði hann sitt gagn. Hann varð eiginlega til fyrr í dag og fékk því að malla drjúga stund. Veðrið var ekkert að kalla mig út og ég hafði nóg fyrir stafni hér heima við.

Engin búðarferð nauðsynleg og enginn að kvarta. Það er misjafnt hvað lendir í réttum sem þessum hjá mér – það grænmeti sem til er hverju sinni og síðan linsubaunir, kókosmjólk og fleira gott.

Í raun má setja nokkurn veginn hvað sem er í rétti sem þessa, en rótargrænmeti klikkar seint ásamt ýmsu öðru, Kartöflur, rófur, sætar kartöflur, rauðrófur….paprika, blaðlaukur, fennel, spínat…bara tiltekt í grænmetisskúffunni og smá þolinmæði;)

Í þetta sinn fór í pottinn:

2 litlir laukar
1 stór sæt kartafla
2 risavaxnar gulrætur
2 fremur smáar bökunarkartöflur
1 meðalstór rauð paprika

Vænn biti af engifer og heill hvítlaukur…

Skera, saxa, malla….

4 – 5 msk tómatpúrra
1 msk ómalað kúmin
2 msk turmerik
1 msk garam masala
Smá salt og pipar

Loks voru 2 dósir kókosmjólk, um 300 gr rauðar linsubaunir, um 600 ml af vatni og 1 dós af kjúklingabaunum…og malli mall…

Hrísgrjónin soðin, nýmalað rautt chilli yfir allt og kallað „matur“!

Verði ykkur að góðu!:)