Svokallað Eurostream 2020 fór fram í gærkvöldi þar sem 24 Eurovision-vefsíður sameinuðust um að standa að úrslitakeppni sambærilegri þeirri í framkvæmd sem var aflýst.

Auðvitað var ekki um sömu umgjörðina að ræða, enda mestanpart áhugafólk sem að þessu stóð, en það breytir því ekki að sjálf atkvæðagreiðslan þykir hafa gefið nokkuð góða mynd af því sem hefði orðið niðurstaðan í Eurovison ef skrambans kórónaveiran hefði ekki komið til.

Þegar 15 lönd höfðu greitt almenn atkvæði og níu áttu það eftir leiddi Malta með 166 stig, fimm stigum meira en Ísland sem var í öðru sæti með 161 stig. Svíþjóð vermdi þá þriðja sæti með 149 stig og í humátt fylgdu Litháen og Ítalía með 137 og 133 stig.

Þá fór boltinn að rúlla hratt hjá okkar fólki sem tók örugga forystu á endasprettinum og lét hana ekki af hendi eftir það. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá stöðuna eftir að allar þjóðirnar höfðu sent inn almenn atkvæði.

Staðan eftir að allar 24 þjóðirnar höfðu greint frá almennum atkvæðum. Þá voru bara dómnefndaratkvæðin eftir.

Var þá komið að dómnefndaratkvæðunum sem hefðu getað breytt öllu en gerðu það ekki.

Áhugasamir geta séð nokkur myndbönd frá keppninni á YouTube en hér fyrir neðan er atkvæðagreiðslan. Hefst myndbandið reyndar þegar hún er byrjuð og nokkur lönd hafa þegar sent inn atkvæði sín.