Við vitum það ekki fyrir víst, en ætli það sé ekki óhætt að gera ráð fyrir að Eurovison-þátturinn Eurovision-gleði – Okkar 12 stig sem sýndur var á Rúv í gær hafi fengið metáhorf.

Þátturinn var sneisafullur af fjöri og skemmtilegheitum þar sem mörg kunnugleg andlit úr íslenskum Eurovison-keppnum lögðu hönd á plóg og komu fram. Upphafsatriðið var t.d. bráðskemmtilegt og hápunkturinn var svo þegar Will Ferrell tilkynnti að ítalska lagið Fai rumore með Diodato hefði sigrað í kosningu íslenskra Eurovision-aðdáenda. Áður hafði hann lýst yfir ást sinni á Íslandi og Íslendingum.

Ísland sigrar í Svíþjóð

Í þættinum komu einnig fram glænýjar fréttir um að í sambærilegri kosningu í Svíþjóð, eða í Sveriges 12:a-keppni sænska ríkissjónvarpsins, var það Daði Freyr og gagnamagnið sem sigraði. Sænska þáttinn má sjá í heild sinni hér.

Hot Chip mixar Think About Things

Skömmu áður hafði Daði Freyr tilkynnt á Twitter um mix-útgáfu breska synth-popp-bandsins Hot Chip á Think About Things. Má hlusta á lagið í gegnum tíst Daða hér fyrir neðan en þar er m.a. vísað á það á YouTube.

Fyrsta lagið úr myndinni, Volcano Man

Og rúsínan í pylsuendanum er svo nýtt tíst frá Ding-a-Dong Podcast um fyrsta lagið úr nýju Eurovison-myndinni sem Will Ferrell leikur í en það heitir Volcano Man.

Myndin, sem heitir fullu nafni Eurovision Song ContestThe Story of Fire Saga, fjallar um Íslendingana Lars og Sigríði (Will og Rachel McAdams) sem eru send fyrir hönd þjóðarinnar í Eurovision og fá þar með tækifæri til að vekja heimsathygli.

Ekki liggur þó fyrir hvort Volcano Man sé lagið sem fer í keppnina í myndinni fyrir Íslands hönd.

Leikstjóri er David Dobkin og með önnur hlutverk fara m.a. Pierce Brosnan, Demi Lovato, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Ólafur Darri Ólafsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Björn Hlynur Haraldsson og Dan Stevens. Netflix framleiðir myndina.

Forsíðumynd: Skjámynd af RÚV.