Steikja laukinn og beikonið – hrár laukur í kjötbollur – nei. Mikil mistök. Við steikjum hann áður – það er betra. Ok?

Síðan bara blanda saman – smá af þessu, smá af hinu, sletta hér og hókus pókus…

Hlutföllin hér að neðan og fullt af myndum til útskýringa. Notið hlutföllin til viðmiðunar að sjálfsögðu og passið að þær séu nægilega þéttar í sér til að detta ekki í sundur á pönnunni við steikingu en ekki það þéttar að úr verði skopparaboltar. Betra að ein og ein detti aðeins í sundur en að þær verði of stífar. Þær fara loks inn í ofn…

Við skulum vinda okkur í verkið!:)

       

1 kg nautahakk
300 gr ricotta
1 búnt steinselja
2 egg
150 gr brauðraspur
6-7 sneiðar beikon
1 lítill laukur
3-4 hvítlauksrif
200 gr parmesan
50 ml ólífuolía

oregano, sjávarsalt, hvítur og svartur pipar, nýmalað chilli…nóg af hverju – eftir smekk það er.

Þetta fór sem sé allt í bollurnar. Að auki er 1 dós af tömötum, meiri parmesan, ólífuolía til að steikja laukinn og steinselja yfir…ok?

Og spaghetti eða annað pasta.

Steikja laukinn og beikonið í ólífuolíu og hafa allt fremur smátt skorið. Hvítlaukurinn á pönnuna alveg undir rest svo hann brenni ekki.

Bæta þessu í hakkið ásamt eggjum, raspi, ricotta, parmesan og vissulega kryddum og steinselju.

Krydda vel – þær þola það alveg;)

Steikja á öllum hliðum svo þær fái lit – setja í eldfast mót – 1 dós af hökkuðum tómötum yfir eða passata tómatsósu – parmesan yfir allt – inn í ofn þar til gullið. 200 gráður – þar til farið er að krauma vel í öllu!

Tilvalið að sjóða pastað á meðan.

Smá steinselju yfir allt og kalla “matur”!

Verði ykkur að góðu:)