Saga hljómsveitarinnar The Beatles er vel kunn og ítarlega skráð enda um að ræða eina frægustu og vinsælustu hljómveit sögunnar, og þá  bestu að margra mati. Um hljómsveitina og þá sem hana skipuðu, Paul McCartney, John LennonGeorge Harrison og Ringo Starr, hafa verið skrifaðar ótal bækur og heimildarrit, áreiðanlega milljónir blaðagreina, fjöldi útvarps- og sjónvarpsþátta verið gerðir og – eftir að Netið kom til sögunnar – þúsundir vefsíðna settar upp.

Maður hefði því haldið að búið væri að draga fram í dagsljósið flest það merkilegasta í sögu sveitarinnar og félagana fjögurra. Þó er eitt sem hefur alltaf verið sveipað dálitlum hulinshjúp og það varðar upplausn hennar árið 1969 og þá sérstaklega það sem gerðist í kjölfarið, þ.e. nokkurra ára ósætti æskuvinanna Johns og Pauls. Ljóst er að síðasta hljóðritunin sem fjórmenningarnir tóku allir saman þátt í var hljóðritun lagsins The End í Abbey Road-hljóðverinu þann 18. september 1969 og þann 20. september tilkynnti John félögum sínum hverjum fyrir sig að hann væri hættur í bandinu. Ekkert var þó gefið út opinberlega um þessa ákvörðun hans á þeim tíma.

Margvíslegar og flóknar ástæður

Síðar átti eftir að koma í ljós að upplausnin átti sér í raun mun lengri aðdraganda og flóknari ástæður en flestir héldu á þeim tíma því þótt það hafi vissulega verið John sem kvaddi samstarfið fyrst endanlega liggur alveg fyrir að hinir þrír áttu allir sína sök á því að svo fór sem fór, og þá sérstaklega Paul McCartney. Er nokkuð ljóst að skipið hefði sokkið hvort sem er þegar John ákvað að yfirgefa það fyrir fullt og allt.

Um endalok Bítlanna og ósættið þar á eftir liggja fyrir margar heimildir og geta áhugasamir auðveldlega flett þeim upp á netinu. Þess má þó geta að þegar eftirmálin eru rædd er sjaldnast haft í huga að í raun slitu Bítlarnir ekki samstarfinu formlega fyrr en á árinu 1974. Ástæðan er að sveitin var fyrir löngu orðin að risafyrirtæki og það tók langan tíma að gera það upp og leysa úr alls konar lagaflækjum og deilum.

Hættu að hittast

Eftir að Paul McCartney tilkynnti svo formlega í apríl 1970 að hann væri ekki lengur í Bítlunum, sem þar með væru hættir, fóru ótal sögur um djúpt og alvarlegt ósætti hans og Johns á flug og áttu sumar þeirra sér stoð í raunveruleikanum þótt flestar væru ósannar eða a.m.k. bara hálfsannleikur. Um leið varð það að einu helsta áhugamáli margra blaðamanna að komast að sannleika málsins. Það hefur aldrei tekist að fullu enda erfitt í svona persónulegum málum að finna allar hliðar þeirra og búa til eina heild. Það liggur alltaf eitthvað meira undir sem engin utanaðkomandi getur séð.

Það fór þó ekkert á milli mála að um alvarlegt ósætti á milli æskuvinanna var að ræða. Eftir að hafa verið saman öllum stundum í mörg ár voru þeir John og Paul skyndilega hættir að hittast nema þegar nærveru þeirra var óskað vegna uppgjörs á fyrirtækinu. Þá tóku viðstaddir hins vegar eftir því að þeir forðuðust hvorn annan í lengstu lög og á milli þeirra andaði greinilega köldu þótt þeir reyndu báðir að láta sem minnst á því bera.

Ósættið verður opinbert

Segja má að ósættið hafi svo orðið opinbert þegar Paul gaf út plötuna RAM í maí 1971 ásamt eiginkonu sinni, Lindu. Voru menn fljótir að uppgötva að ýmislegt í textum laganna á plötunni virtist beinast að John og gat tæplega talist jákvætt. Skýrast þótti þetta í texta lagsins To Many People þar sem Paul virtist kenna sambandi Johns og Yoko Ono um að Bítlarnir hættu og sagði það vera hans stærstu mistök. Ekkert var þó sagt beint út, engin nöfn nefnd og engin atvik tilgreind þannig að Paul gat nokkuð auðveldlega neitað því að þetta væru skilaboðin í textanum. Seinna átti hann þó eftir að viðurkenna að túlkunin væri rétt.

Og auðvitað skildi John sneiðina, eða sneiðarnar, mætavel. Skiljanlega reiddist hann sínum gamla vini enda vilja fáir láta aðra segja sér að eiginkonan og stærsta ástin í lífi manns séu manns stærstu mistök og taka því tæplega þegjandi. John tók sig því til og svaraði með laginu How Can You Sleep, en öfugt við texta Pauls var texti Johns nánast bein og ódulin árás á Paul frá byrjun til enda. Þar var m.a. farið niðrandi orðum um persónu hans og tónlist og sagt berum orðum að Yesterday væri hans eina góða tónsmíð.

Þótt John hefði viðurkennt að textanum væri beint til Paul reyndi hann að draga úr áhrifum orða sinna í viðtölum eftir útgáfu lagsins og sagði fólk oftúlka þau. Það hélt samt eiginlega engu vatni vegna þess hve beinskeytt þau voru og að sjálfsögðu skildi Paul skotin manna best.

Ræðir málið í viðtali við Howard Stern

Eftir því sem við best vitum hefur Paul aldrei fengist til að tala um hvað honum þótti um þá árás sem fólst í texta lagsins How Can You Sleep og hvernig honum leið eftir að hann heyrði hann … fyrr en á dögunum þegar hann mætti í rúmlega fjörutíu mínútna símaviðtal við útvarpsmanninn kunna, Howard Stern.

Þar byrja þeir á að ræða um heimsmálin og Covid-19, hvar Paul sé staddur núna, hvað hann sé að gera um þessar mundir, hvort hann fái nóg að ríða og margt fleira almennt og fróðlegt, og að sjálfsögðu um tónlist og tónlistarfólk. Svarar Paul m.a. þeirri sígildu spurningu hvor hafi verið betri hljómsveit, Bítlarnir eða Rolling Stones. Að því kemur svo að Howard spyr Paul hvaða áhrif texti Johns í How Do You Sleep hafi haft á hann á sínum tíma.

„Já, hann olli mér talsverðum sársauka og depurð, ég viðurkenni það.“ segir Paul m.a. og ræða þeir svo nánar um þetta atvik, kringumstæðurnar á þessum tíma, ósætti þeirra Johns vegna upplausnar Bítlanna, hvers vegna Paul hefði ekki reynt að halda Bítlunum gangandi án hans (tillaga Howards), samband hans við Ringo og George eftir Bítlaárin, æskuár þeirra Johns, sættir þeirra síðar meir og margt, margt fleira sem öruggt má telja að bæði aðdáendur Bítlanna og Pauls hafa mjög gaman af að heyra beint frá honum, enda getur Paul verið afar skemmtilegur og opinn viðmælandi þegar sá gállinn er á honum.

Símaviðtalið er hér í heild sinni: