Japanska fyrirtækið SkyDrive Inc. kynnti á dögunum fyrir almenningi frumgerð sína af fljúgandi bíl. Gripurinn, sem ber nafnið SD-03 á þessum tímapunkti í þróunarferlinu, tókst á loft í fjórar mínútur, með flugmann undir stýri.

SD-03 er hannaður fyrir eina manneskju og hefur því aðeins eitt sæti. Samkvæmt fyrirtækinu er hann smæsta mannaða hnita heims, en hnita er flokkur hreyfilknúinna loftfara sem geta lent eða tekist á loft eftir meira og minna lóðréttri flugslóð. Inniheldur þessi flokkur meðal annars þyrlur, vænghnitur og nútímadróna.

Farartækið — sem er tveir metrar á hæð, fjórir metrar á lengd og fjögurra metra vítt — er útbúið fjórum hreyflum sem gera því kleift að fljúga og er hver hreyfill útbúinn sínum eigin mótor í öryggisskyni. SD-03 getur eins og er haldið sér á lofti í kringum 10 mínútur, en stefnir fyrirtækið að því að auka þann tímaramma allt upp í 30 mínútur.

Að sögn SkyDrive, sem á höfuðstöðvar sínar í Tokyo, munu næstu skref snúast um að prófa SD-03 við mismunandi veðurfarskringumstæður. Stefnir fyrirtækið að því að bíllinn komi á markað fyrir árið 2023.

Sjáið myndskeiðið hér að neðan: