Eins og verið hefur í fréttum, a.m.k. sums staðar, birti bandaríski spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel myndbrot í þætti sínum á dögunum þar sem Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, var sagður sjást bera tóma kassa sem sagðir voru fullir af læknavörum og átti þetta að vera gert til að blekkja fólk og fjölmiðla – eða það var alla vega gefið í skyn.

Í ljós kom að Jimmy og hans fólk hafði hlaupið á sig, viljandi eða óviljandi. Myndbrotið af Pence sýndi nefnilega ekki allan sannleikann og samhengið. Hann var nefnilega bara að grínast með tómu kassana … eftir að hafa í raun borið inn fullt af kössum sem í raun voru pakkfullir af læknavörum.

Jimmy biðst afsökunar

Urðu mjög margir repúblikar og aðilar innan ríkistjórnar Bandaríkjanna öskureiðir yfir þessari „fölsun“ Jimmys og kröfðust afsökunarbeiðni. Jimmy varð við því samdægurs, baðst afsökunar á Twitter og tók myndbrotið niður. En þá sendi Hvíta húsið honum póst þar sem krafist var að hann bæðist afsökunar í beinni útsendingu, þ.e. á sama vettvangi og „fölsunin“ birtist. Í gær ákvað hann að verða við þeirri kröfu.

Um leið notaði hann tækifærið og skaut  hressilega til baka, sérstaklega í lokin þegar hann sýndi raunverulega falsað myndbrot um Trump.