Kvikmyndin Joker, sem út kom á síðasta ári, naut gríðarlegra og jafnframt óvæntra vinsælda, þrátt fyrir mikið og misjafnt umtal um innihald hennar og hvort hún beinlínis hvetti til ofbeldis. Vann hún meðal annars til tveggja Óskarsverðlauna. Eitt hreppti aðalleikarinn, Joaquin Phoenix, og hitt vann íslenska tónskáldið Hildur Guðnadóttir.

Nú hefur komið á daginn að Warner Brothers, kvikmyndaverinu sem framleiddi fyrstu myndina, sé afar mikið í mun að fá Phoenix aftur í aðalhlutverkið — ekki bara í eina mynd heldur tvær.

Fregnir herma að kvikmyndaverið bindi vonir við að myndirnar tvær gætu verið kláraðar og tilbúnar til sýninga árin 2022 og 2024. Samkvæmt ónefndum aðila hjá verinu hefur Phoenix skipt um skoðun frá því sem áður var, en hann lýsti því margoft yfir í fyrra að Joker væri sjálfstæð mynd sem ekki ætti að eiga sér framhald.

Nú er hann hins vegar áhugasamur um að leika persónuna aftur, ekki síst vegna þess hve rækilega fyrri myndin endaði með að slá í gegn. Að sögn aðilans eru samningaviðræður enn í gangi, en handritsskrifin eru komin vel á veg og Phoenix er sagður mjög innviklaður í verkefnið.

Einnig eru að sögn aðilans áform um að halda hópnum úr fyrri myndinni saman eftir fremsta megni. Til stendur að reyna að hafa Martin Scorsese og Bradley Cooper áfram sem framleiðendur, og vitanlega myndi leikstjórinn, Todd Phillips, vera bak við myndavélina sem fyrr. Ekki fylgir sögunni hvort áformað sé að fá Hildi Guðnadóttur til að semja tónlistina, en miðað við hve vel heppnaðist til í fyrstu myndinni hlýtur það að teljast afar líklegt.

Til þess að allt gangi upp þarf fólk þó að skrifa undir — eitthvað sem hefur ekki gerst enn. Joker-aðdáendur bíða átekta.