Júpíter - stóri rauði bletturinn
Þessa mynd af stóra rauða blettinum á Júpíter tók Júnó-geimfarið sem er á sporbaug um hann. Nú er komið í ljós að dökku svæðin í blettinum eru í raun göt í gegnum hann.

Ný og glæsileg mynd af gasrisanum Júpíter, langstærstu reikistjörnu sólkerfisins, hefur m.a. leitt í ljós að dökku svæðin í stóra rauða blettinum, sem aðallega hefur verið giskað á að séu litbrigði skýja, eru í raun „léttskýjuð“ göt í gegnum hann. Fyrst og fremst sýnir myndin þó betur en nokkur önnur mynd hefur áður sýnt hvar þungskýjað er á reikistjörnunni (því dekkra því þungskýjaðra) og hvaða svæði þar á milli eru léttskýjuð (því meiri bjarmi því léttskýjaðra).

Það hefur tekið vísindamaenn um þrjú ár að setja þessa mynd saman en hún er að mestu tekin með innrauðri tækni sem fer létt í gegnum ytri lofthjúp Júpíters en stöðvast á þungskýjuðu svæðunum. Um leið kemst hún á milli þeirra þar sem léttskýjað er og má segja að því meiri sem birtan er því nær séu menn komnir því að sjá hið raunverulega yfirborð reikistjörnunnar.

Gríðarleg vinna að baki

Myndin er samsett úr fjölda uppsafnaðra mynda frá níu mismunandi geimsjónaukum þar sem þær mikilvægustu, þessar innrauðu, komu frá Gemini-sjónaukanum í Chile. Þess utan eiga Hubble-sjónaukinn og Júnó-geimfarið, sem nú hefur verið á sporbaug um Júpíter í fjögur ár, stærstan þátt í að afla efnis í myndina. Hún er nú  skarpasta og skýrasta mynd sem nokkurn tíma hefur verið gerð af Júpíter og er sögð gefa bestu hugmyndina að því hvernig maður sæi Júpíter í raun og veru með eigin augum ef maður kæmist inn fyrir lofthjúpinn.

Hér er myndin í allri sinni dýrð og fyrir neðan eru tenglar á vefsíður fyrir þá sem vilja vita meira.

Um Júpíter á Stjörnufræðivefnum og á Wikipedia.

Um gerð þessarar myndar á Inverse.com. en þar eru svo tenglar á vísindasíður sem lýsa í smáatriðum tækninni á bak við gerð myndarinnar og hvað hýn hefur sýnt vísindamönnum.

Myndir: NASA