Samkvæmt nýrri skoðanakönnun POLITICO/Morning Consult nýtur rapparinn Kanye West einungis tveggja prósenta fylgis meðal kjósenda í Bandaríkjunum. Frá því hann tilkynnti um framboð sitt á þjóðhátíðardag Bandaríkjanna, þann fjórða júlí síðastliðinn, hafa margir efast opinberlega um að Hr. West hafi verið alvara, enda er hann alþekktur fyrir uppátækjasemi sem talin er ýmist orsakast af athyglissýki, geðhvarfasýki eða hvoru tveggja. Svo virðist þó þegar hér er komið sögu að honum sé dauðans alvara.

Hr. West virðist ennfremur staðráðinn í að halda áfram róðrinum þó syrt hafi allverulega í álinn undanfarið. Illa hefur t.d. gengið hjá starfsfólki kosningabaráttu hans að koma nafni hans á kjörseðla í mörgum fylkjum, þar á meðal í heimafylki hans, Illinois.

Þekkt er að Hr. West hefur átt í nánu persónulegu sambandi við Donald Trump Bandaríkjaforseta síðan sá síðarnefndi komst til valda árið 2016. Hefur rapparinn meðal annars lýst yfir stuðningi sínum á almenningsvettvangi og margoft heimsótt Trump í Hvíta Húsið.

Einnig hefur hann sjálfur, við afar lítinn fögnuð kjósenda, rennt stoðum undir þá kenningu að hann sé einungis í framboði til að skafa atkvæði af Joe Biden, frambjóðanda Demókrata. Þegar viðmælandi Hr. Wests benti honum á það að hann yrði ekki á nægilega mörgum kjörseðlum til að hljóta þau 270 atkvæði kjörmannaráðs sem þarf til að vinna forsetastólinn — og að þátttaka hans myndi þar af leiðandi ekki vera til annars en að spilla fyrir öðrum — svaraði rapparinn um hæl:

“Ég ætla ekki að rífast við þig. Jesús er konungur.”

Gott og vel, Hr. West. Gott og vel.