Ferðamálastofa Kasakstans hefur tekið nýju Borat-myndinni opnum örmum með því að nota slagorð hans, „Very nice!” í röð auglýsinga fyrir landið. Myndin ber hið fíngerða heiti Borat Subsequent Moviefilm: Delivery of Prodigioius Bribe to American Regime for Make Benefit Once Glorious Nation of Kazakhstan. Rétt eins og fyrri myndin um blaðamanninn kostulega, sem bar hið álíka snotra heiti Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan, gerir hún óspart grín að Kasakstan og dregur upp vægast sagt lítt skjallandi mynd af landi og þjóð.

Fyrri myndin var bönnuð í Kasakstan á sínum tíma, þar sem ráðamönnum þótti hart að landinu vegið, meðal annars með því að sýna það sem hreina og beina gróðrarstíu fátæktar og vanþróunar. Nú hefur ferðamálastofa landsins þó samþykkt að nota slagorð persónunnar til að hvetja fólk til að gera upp sinn eigin hug gagnvart landinu.

Í auglýsingunum má sjá ferðafólk upplifa matseld, markaði, borgir og landslag Kasakstans, og í hvert sinn endar myndskeiðið á því að túristi lýsir yfir „Very nice,” þó ekki sé gengið það langt að líkja eftir einstökum raddblæ Borats sjálfs.

Kairat Sadvakassov, varaformaður ferðamálastofunnar, sagði í fréttatilkynningu um daginn, „Slagorðið er hin fullkomna lýsing á gríðarlegum ferðamannamöguleikum Kasakstans á stuttan og minnisstæðan hátt. Nátturan í Kasakstan er „very nice”; maturinn er „very nice”; og þrátt fyrir að grínið hans Borat segi annað þá er fólkið með því mest „nice” í heiminum.”

„Við hvetjum alla til að koma og upplifa Kasakstan sjálf með því að heimsækja landið okkar árið 2021 og þaðan í frá, svo þið getið séð að heimaland Borats er skárra en þið hafið heyrt,” sagði hann.

Sjáið auglýsingarnar hér að neðan: