Mér finnst dásamlegt að gera mér glaðan dag með kökudeigi sem má borða hrátt. Ég fann uppskrift að ketóvænu kökudeigi á matarvefnum Delish og bara varð að deila uppskriftinni áfram því hún er algjör snilld. Tilvalið er að geyma þessa kökudeigshnoðra í frystinum þegar að sykurlöngunin lætur á sér kræla.

Ketóvænt kökudeig

Hráefni:

8 msk. mjúkt smjör
1/3 bolli ketóvænt sætuefni, til dæmis Swerve
½ tsk. vanilludropar
½ tsk. salt
2 bollar möndlumjöl
2/3 bolli sykurlaust, dökkt súkkulaði, grófsaxað

Aðferð:

Þeytið smjör þar til það er létt og ljóst. Bætið sætuefni, vanilludropum og salti saman við og þeytið vel. Blandið mjölinu varlega saman við og síðan súkkulaðibitunum. Setjið plastfilmu yfir skálina og setjið í ísskáp í 15 til 20 mínútur. Búið til litlar kúlur úr kökudeiginu og geymið þær í ísskáp þar sem þær geymast í viku, eða í frysti þar sem þær geymast í mánuð.