Leyniþjónusta Suður-Kóreu lýsti því yfir á dögunum að samkvæmt þeirra heimildum er Kim Yo Jong, systir norðurkóreska leiðtogans Kim Jong Un, orðin önnur valdameskja manneskja þjóðarinnar, þó ekki sé búið að formlega nefna hana sem eftirmann bróður síns.

Ha Tae-keung, meðlimur í leyniþjónustunefnd suðurkóreska þingsins, sagði síðastliðinn fimmtudag að Kim Yo Jong væri tekin að gegna háttsettum skyldum innan ríkisstjórnarinnar í umboði bróður síns. Er hún samkvæmt skýrslu nefndarinnar meðal annars nú talin ábyrg fyrir samskiptum Norður-Kóreu við Bandaríkin og Suður-Kóreu.

Kim Yo Jong, sem er talin rétt rúmlega þrítug, er eini náni ættingi leiðtogans sem gegnir sýnilegu hlutverki í stjórnmálum landsins gagnvart almenningi. Nýverið stóð hún til að mynda fyrir almenningsátaki sem ætlað var að herða pólitískan þrýsting á Suður-Kóreu.

Ha Tae-Kung sagði einnig að þó Kim Jong Un væri enn alvaldur væri hann búinn að úthluta örlítið meira af valdi sínu heldur en áður hefði þekkst, og Kim Yo Jong væri því önnur valdamesta manneskja þjóðarinnar að öllu nema nafninu til. Kom þetta fram í gögnum sem Reuters-fréttastofan hefur undir höndum frá lokuðum fundi leyniþjónustunefndarinnar í síðustu viku.

Einnig hefur nokkrum lágt settari ráðamönnum í Norður-Kóreu verið úthlutað aukið vald í efnahags- og hernaðarmálum en áður þekktist, og telur Ha að mögulega hafi það verið gert til að minnka álagið á leiðtoganum, ásamt því að gera honum kleift að dreifa sökinni víðar ef illa fer á einhvern hátt.

Kim Yo Jong vann sér til frama í aðdragandanum að fundi Kim Jong Un við Donald Trump Bandaríkjaforseta árið 2019, þar sem hún þótti sýna framúrskarandi viðleitni til að tryggja að allt færi fram á sem skilvirkastan hátt. Frægt varð sérstaklega þegar hún hélt á öskubakka fyrir bróður sinn á lestarstöð á leið til fundarins.

Sýnileiki hennar í almenningsherferðinni gegn Suður-Kóreu fyrr á árinu þykir sérfræðingum þó benda sterklega til þess að hún sé tekin að spila mun mikilvægari hlutverk innan ríkisstjórnarinnar en áður. Hún þótti einkar harðorð í gagnrýni sinni á nágrannalandið að sunnan, og fjölmiðlar í Norður-Kóreu lýstu henni jafnan sem lykilmanneskju þegar kæmi að ákvarðanatöku.

Í júlí síðastliðnum gaf hún út óvenjulega yfirlýsingu í ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu þar sem fram kom að bróðir hennar hefði veitt henni sérstakt leyfi til að horfa á upptökur af þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, og væri hún að stunda það grimmt. Ekki gaf hún þó frekari útskýringar á þeim skyndilega áhuga.

Í apríl síðastliðnum, þegar sögusagnir um hrakandi heilsu Kim Jong Un komust á kreik, spruttu strax upp getgátur þess efnis að hún yrði mögulegur staðgengill bróður síns þangað til eitthvert barnanna hans kæmist á aldur til að taka við völdum.

Undanfarna viku hafa sögusagnir um heilsu leiðtogans fengið byr undir báða vængi að nýju, þó svo enn hafi ekki borist neinar haldbærar sannanir að svo búnu.