Hér kemur “leti-réttur” sem varð til hérna áðan.

Allt í fat og inn í ofn. Nema pastað það er að segja. En þið föttuðuð það…

Var með 3 kjúklingabringur og ekkert plan. Annað en það, að ég nennti engan veginn að standa og hræra í pottum. Þá er alltaf gott að byrja á því að grípa eldfast mót og byrja að hrúga einhverju í það!

1 rauður chillipipar
3 stór hvítlauksrif
Safi úr 1 sítrónu
Jómfrúarolía (svona svipað magn og sítrónusafinn)
Steinselja-nokkrar greinar

Sjávarsalt
Hvítur pipar
Sætt paprikuduft

4-5 plómutómatar

Setti bringurnar í fatið og byrjaði sem sé að fleygja alls konar ofaná þær.
Kreista sítrónu, hella ólívuolíu, henda þunnum sneiðum af hvítlauk og smátt söxuðum chillipipar í partíið…

Steinselja og krydd fóru líka í fatið og síðan velti ég bringunum úr blöndunni.

Loks skar ég nokkra tómata og fleygði ofaná.

Henti þessu í ofninn á 180 gráður og leyfði því að dóla sér þar í svona…45 mínútur? Já..eitthvað svoleiðis. Algjör letiréttur en ekki verri fyrir það.

Pastað sauð ég og sletti síðan basilolíu yfir það. Það er alltaf gott.

Parmesan? Nei…ekkert endilega. En ef þið viljið og nennið að rífa hann-því ekki.

Verði ykkur að góðu:)