Kokkurinn Kelvin Fernandez hefur unnið með fjöllistakonunni Jennifer Lopez og unnusta hennar, Alex Rodriguez, í um tvö ár. Í viðtali við Us Weekly segir hann að Lopez sé mjög hörð við sjálfa sig þegar kemur að mataræði, sérstaklega þegar stórviðburður er í kortunum.

Fernandez eldaði eftir mjög ströngu mataræði í heilan mánuð áður en Lopez skemmti í hálfleikssýningu Ofurskálarinnar í febrúar síðastliðnum. Fernandez segir Lopez beita sig miklum sjálfsaga þegar hún setur sér markmið.

 

Borðaði það sama á hverjum degi

„Það er svalt að þegar þessi kona setur sér markmið, þá setur hún sér markmið. Hún segir: Kelvin, hér er matarplanið. Þetta er það sem ég vil borða í morgunmat, hádegismat og kvöldmat,“ segir kokkurinn. Þetta stranga matarplan fyrir Ofurskálina fól í sér að Lopez borðaði ekki kolvetni og sykur, til að mynda.

„Hún borðaði það sama á hverjum einasta degi,“ segir Fernandez og bætir við að hann hafi þurft að finna nýjar leiðir til að elda þrjár máltíðir á dag því það hafi reynst honum erfitt að öll kolvetni voru á bannlista. „Ég hef aldrei eldað morgunverðargrænmeti áður en þessi kona fékk sér eggjahvítuhræru með grænmeti á þrjá mismunandi vegu á hverjum degi.“

Jennifer Lopez kallar ekki allt ömmu sína. Skjáskot / Today

„Þú fékkst þér hrísgrjónin!“

Fernandez rifjar síðan upp atvik þar sem hann ætlaði að verðlauna Lopez fyrir að standa sig svona vel.

„Ef ég klúðra einhverju þá fæ ég að heyra það,“ segir hann. „Ég reyndi einu sinni að vera góður og hugsaði: Þessi kona hefur lagt hart af sér. Hún á þetta skilið. Mig langar að elda fjölskyldumáltíð. Næsta dag sagði hún: Kelvín, þú bauðst mér upp á hrísgrjón. Og ég sagði: Nei, nei, nei, nei, nei. Það var kjúklingur á boðstólnum, það var salat. Þú fékkst þér hrísgrjónin!“

Fernandez segir að Lopez hafi tekið þessu vel og grínast með þetta, en að atvikið hafi breytt því hvernig hann eldar fyrir hana og Rodriguez. Hann hafi byrjað að útbúa sérmáltíð fyrir Lopez og bannað henni að horfa á diska annarra við borðið.

Mjög öguð

Kokkurinn segir að Lopez sé vissulega sætindagrís en þegar að hún setji sér markmið að þá falli hún ekki í freistingu þegar hann eldar eitthvað gúmmulaði fyrir aðra fjölskyldumeðlimi.

„Hún er mjög öguð,“ segir hann og kallar mataræði hennar „strangt“. Hann bætir einnig við að það sé unun að vinna fyrir parið og að þau séu ávallt til í að prófa nýja hluti þegar kemur að mat.