Þann 3. september næstkomandi munu íbúar Jamaíku-eyjar í Karíbahafinu halda til kosningabása, en kosningabarátta í Jamaíku fer fram með aðeins öðruvísi hætti en tíðkast á nyrðri slóðum.

Kosningafundir í Jamaíku eru nefnilega þekktir fyrir háværa tónlist sem spiluð er í risavöxnum hljóðkerfum, og eru þar dancehall og dub tónlistarstefnurnar í fararbroddi. Tónlistarbrotum úr vinsælum dægurlögum er reglulega skotið inn í ræður stjórnmálamanna, og er óhætt að segja að andrúmsloftið líkist meira samkvæmi en kosningafundi, að minnsta kosti eins og þeir þekkjast annarsstaðar.

Hins vegar hafa afleiðingar Covid-19 faraldursins komið illilega niður á tónlistariðnaði Jamaíku. Útgöngu- og samkomubönn hafa sett svip sinn á samfélagið þar fyrir sunnan líkt og annarsstaðar í heiminum. Höfuðborgin, Kingston, sem alla jafna leiftrar af lífi, er ósköp þögul um þessar mundir.

Til að bæta fyrir lífleysið hafa frambjóðendur tekið upp á því að gera sín eigin myndbönd í samráði við tónlistarmenn, og eru þessi myndbönd yfirleitt kölluð „dubplates,“ en það nafn er tekið frá sérstakri tegund af plötu sem gerð er úr asetati í stað vínils, og hefur um áratugabil spilað stórt hlutverk í reggímenningunni (sem og öðrum tónlistarstefnum), sökum þess að vera ódýr í framleiðslu og því kjörin til að setja í hendurnar á plötusnúðum áður en formleg útgáfa á sér stað.

Þau dubplates sem hér um ræðir eru öllu stafrænni, enda er þeim dreift á Twitter að mestu leytinu til. Hér er til dæmis eitt, frá frambjóðandanum Juliet Cuthbert-Flynn:

Mótframbjóðandi Cuthbert-Flynn, Krystal Tomlinson, var snögg til svars:

Menningarmálaráðherra landsins, Olivia „Babsy“ Grange, sem býr yfir áratugareynslu í tónlistarbransanum, lét ekki á sér standa:

Þó svo að þessi myndbönd hafi skapað kærkomnar tekjur fyrir jamaískan tónlistariðnað hafa þau vakið upp æði misjöfn viðbrögð, og þykir mörgum að ansi grunnt sé á málefnalegum umræðum og upplýsingum um stefnur frambjóðenda. Einnig þykir sumum að notkun pólitíkusa á tónlistinni dragi úr neðanjarðargildi hennar og geri hana ódýrari.

Þó standa hlutirnir til bóta: Kappræðuráð Jamaíku stefnir á að sjónvarpa þremur kappræðum á næstunni, og hafa allir frambjóðendur skuldbundið sig til að taka þátt. Áhugavert verður þó að sjá hvort stjórnmálamenn fara aftur í samkvæmisskapið að faraldri loknum, eða hvort haldið verður áfram með myndböndin.