Krókódíllinn Satúrnus [e. Saturn] drapst í dýragarðinum í Moskvu í Rússlandi síðastliðinn föstudag, en þá hafði hann náð 84 ára aldri.

Satúrnus var eflaust á meðal frægustu krókódíla í heimi en ýmsar sögusagnir segja að hann hafi eitt sinn verið í eigu hins alræmda Adolfs Hitler, foringja Nasistaflokksins í Þýskalandi.

„Galið að kenna dýrum um syndir manna“

Satúrnus kom í heiminn í Bandaríkjunum árið 1936 og fékk dýragarðurinn í Berlín hann í gjöf stuttu síðar. Í seinni heimsstyrjöldinni dundu oft sprengjuárásir á dýragarðinum í Berlín og það var svo árið 1943 sem dýragarðinum var rústað í einni slíkri árás. Þá drápust mörg dýranna í garðinum en önnur sluppu, þar á meðal Satúrnus, eða svo segir sagan.

Óljóst er hvar Satúrnus var næstu þrjú árin en árið 1946 fékk dýragarðurinn í Moskvu hann sem gjöf frá breska hernum.

„Nánast samstundis fæddist sú kenning að hann hefði verið í einkaeigu Hitler, en ekki dýragarðsins í Berlín,“ stendur í tilkynningu frá dýragarðinum í Moskvu þar sem sagt er frá dauða Satúrnusar. Hins vegar hefur það aldrei verið sannað að Satúrnus hafi verið gæludýr Hitlers. En ef krókódíllinn hefði í raun fylgt Hitler vilja forsvarsmenn dýragarðsins í Moskvu meina að „dýr blandi sér ekki inn í stríðsrekstur og stjórnmál“ og að það sé „galið að kenna dýrum um syndir manna.“

Syrgja Satúrnus

Það má segja að Satúrnus hafi náð ansi háum aldri miðað við dýrategund en talið er að elsti krókódíll í haldi í heimi sé Muja, sem má finna í dýragarðinum í Belgrad í Serbíu. Muja ku vera um nírætt.

Forsvarsmenn dýragarðsins í Moskvu syrgja nú Satúrnus sem var, að þeirra sögn, matvandur og elskaði nudd.