Veitingahúsið Thai Food Huntly í bænum Huntly á Nýja-Sjálandi komst í hann krappan á föstudaginn var þegar upp kom neyðartilfelli meðal starfsfólks, með þeim afleiðingum að aðalkokkurinn varð skyndilega einn síns liðs í eldhúsinu.

Staðurinn var fullur út úr dyrum og biðraðir búnar að myndast af fólki að ná í mat, og sökum þess að vera einsamall og upptekinn í eldhúsinu gat kokkurinn hvorki tekið við pöntunum né rukkað viðskiptavini.

Skyndilega greip kona ein í biðröðinni miða og blýant og hófst handa við að þjóna til borðs og taka pantanir. Skömmu síðar stökk annar viðskiptavinur til og byrjaði að vaska upp. Einnig leit við starfsfólk úr búðinni við hliðina á staðnum og buðu fram aðstoð.

„Með leyfi kokksins þá kom starfsmaðurinn úr næstu búð og mannaði kassann, svo hægt væri að passa upp á að allir borguðu,“ sagði Emily Puhl, einn viðstaddra viðskiptavinanna. „Það var svo falleg tilfinning.“

Hún skrifaði einnig í færslu á Facebook: „Við gátum auðveldlega fundið fyrir samfélagsvitundinni allt í kring. Fýlusvipir urðu að brosum og fýlubið breyttist í kampakáta bið. Svo frábær staður til að búa á.“