Fastagestum kránnar Behrmann’s Tavern í St. Louis í Bandaríkjunum var heldur betur brugðið á dögunum þegar maður mætti á svæðið harðvopnaður og hófst handa við að ræna staðinn og gestina. Einn fastakúnnanna, 57 ára gamall vélvirkjameistari að nafni Tony Tovar, var hins vegar eins sallarólegur og hugsast getur.

„Ég sagði, ekki enn einn ræfillinn að vera með ræfilslæti,“ sagði Tovar við fréttastofuna Inside Edition, aðspurður um atvikið. „Ég er svo þreyttur á fólki í suðurhlutanum [suður-St. Louis] sem reynir að þröngva sér upp á aðra með skotvopnum, frekju og árásargirni. Ég var ekki að fara að hlýða honum.“

Þegar ræninginn stakk hlaupinu á byssu sinni í síðuna á Tovar og reyndi að taka af honum símann þar sem hann sat við barinn, streittist Tovar á móti og hrifsaði síma sinn til baka. „Ég var alveg viss um að hann væri ekki að reyna að meiða neinn. Hann vildi bara peninga fyrir eiturlyfjum,“ sagði Tovar.

Síðar meir, þegar ræninginn beindi byssunni að andliti Tovars yfir barborðið, byrjaði Tovar á því að kveikja sér í sígarettu, og bað því næst ræningjann um að koma með bjór handa sér, svona fyrst hann væri þarna bakvið. Hefur internetið verðlaunað hann með nafngiftinni „World’s Chillest Man,“ eða „Kaldasti Maður Heims,“ og virðist hann vissulega vel að því kominn.

Samt sem áður, þó svo jafnaðargeð hans og óttaleysi hafi farið um víðan völl á internetinu síðan atvikið varð, tók Tovar sérstaklega fram að hann mælti alls ekki með að aðrir endurtækju leikinn við sambærilegar aðstæður.

Sjáið myndbandið hér að neðan: