Norðurlandaráð tilkynnti í gær þær norrænu bíómyndir sem hlotið hafa tilnefningar til árlegra kvikmyndaverðlauna sambandsins árið 2020. Að venju er um að ræða eina bíómynd frá hverju af norðurlöndunum fimm. Lítum aðeins á hverja um sig.

Ísland

Bergmál/Echo

Eftir Rúnar Rúnarsson (leikstjórn og handrit), Rúnar Rúnarsson, Live Hide og Lilja Ósk Snorradóttir (framleiðendur)

Bergmál er þriðja kvikmynd leikstjórans Rúnars Rúnarssonar í fullri lengd, en áður hafa komið út eftir hann myndirnar Volcano (árið 2011) og Þrestir (árið 2015). Frásagnarramminn er með óvenjulegra móti, en hér er á ferð samansafn 59 óskyldra atriða sem öll eru tengd í gegnum það eitt að gerast um jólaleyti á Íslandi. Farið er um víðan völl og dregnar fram hlýjar, mannlegar, stundum angurværar en jafnframt oft drepfyndnar svipmyndir af þjóðarsálinni og fólkinu okkar, og nær verkið að fanga vel þau fallegu en jafnt mótsagnakenndu hughrif sem jólatíðin hefur í för með sér. Áður hefur Bergmál unnið til sex verðlauna víðsvegar um heim.

Danmörk

Uncle/Onkel

Eftir Frelle Petersen (leikstjórn og handrit), Marco Lorenzen (framleiðandi)

Onkel er önnur bíómynd leikstjórans Frelle Petersen. Fjallar hún um konu á þrítugsaldri sem búið hefur um skeið með fötluðum frænda sínum í sveitlendi Danmerkur. Þegar þau taka veikan nýfæddan kálf í umsjá sína vaknar að nýju hennar fyrri áhugi á dýralækningum, og í gegnum það ferli tekur að myndast vinskapur með henni og dýralækni bæjarins. Onkel vann til æðstu verðlauna á Tokyo Grand Prix kvikmyndahátíðinni á síðasta ári, og er hún jafnan rómuð fyrir framúrskarandi kvikmyndatöku og næmt auga fyrir fínlegri þáttum mannlegra samskipta.

 

Finnland

Dogs Don’t Wear Pants/Koirat eivät käytä housuja

Eftir J.-P. Valkeapää (leikstjórn og handrit), Juhana Lumme (handrit), Aleksi Bardy og Helen Vinogradov (framleiðendur)

Þegar til Finnlands er komið tökum við skarpa U-beygju frá hæglátum norrænum módernisma og fleygjum okkur beint í myrkrið. Dogs Don’t Wear Pants fjallar um einstæðan föður sem er tilfinningalega kulnaður eftir barnsmóðurmissi en byrjar að finna fyrir neistanum á ný í gegnum sadómasókisma, með alls kyns ófyrirséðum afleiðingum. Hér er á ferð óvægjandi athugun á okkar myrkustu þáttum, krydduð af eitruðum gálgahúmor.

Noregur

Beware of Children/Barn

Eftir Dag Johan Haugerud (leikstjórn og handrit), Yngve Sæther (framleiðandi)

Aftur víkjum við okkur á kunnuglegar norrænar slóðir þegar kemur að andrúmslofti, en að flestu öðru leyti er Barn ansi ólík hinum myndunum í þessum tilnefnda hópi. Hér er á ferð hægelduð dæmisaga, samsett úr fínofnum vef söguþráða. Alvarlegt slys verður á leikvelli og kemur á daginn að börnin tvö sem áttu í hlut eru börn tveggja stjórnmálamanna sem standa í hatrammri pólitískri baráttu. Þegar annað barnið deyr svo á spítala skömmu síðar af völdum slyssins upphefst atburðarás sem á eftir að valda stormasömum breytingum í lífi allra sem koma við sögu.

Svíþjóð

Charter/Charter

Eftir Amanda Kernell (leikstjórn og handrit), Lars G. Lindström og Eva Åkergren (framleiðendur)

Amanda Kernell, leikstjóri Charter, er hálfsænsk og hálfsamísk, og vakti hún verðskuldaða athygli fyrir fyrstu mynd sína árið 2016, en hét sú Sami Blood og var nokkurs konar uppgjör Kernell við uppvaxtarár sín í Svíþjóð. Hér er hins vegar allt annað uppi á teningnum: Charter er fjölskyldudrama um tveggja barna móður sem er í þann mund að láta í minni pokann í forræðisdeilu við nýfráskilinn barnsföður sinn. Tekur hún því málin í eigin hendur og fer með börnin í leyfisleysi í ferðalag á suðrænar slóðir, staðráðin í að tengjast þeim á ný. Gagnrýnendur hafa lofað Charter einkum fyrir gullfallega kvikmyndatöku (þess má til gamans geta að hér er á ferð Sophia nokkur Olsson, en hún tók einnig Bergmál Rúnars Rúnarssonar og er því tvítilnefnd hér), sterka persónusköpun og framúrskarandi frammistöðu hjá aðalleikonunni, Ane Dahl Torp.

Hefur þú séð þessar? Hver finnst þér sigurstranglegust? Láttu okkur vita í athugasemdunum!