Extraction posterHasarmyndin Extraction var frumsýnd á Netflix 24. apríl og var búin að slá öll fyrri streymismet 1. maí þegar meira en 90 milljón heimili höfðu sótt hana. Síðan hafa nokkrar milljónir bæst við þá tölu og sér ekki fyrir endann á vinsældum hennar. Extraction er því ekki bara orðin vinsælasta mynd Netflix frá upphafi heldur er hún jafnframt langvinsælasta mynd í heimi í dag.

Fyrir utan forsvarsmenn Netflix eru aðalsprauturnar á bak við gerð myndarinnar bræðurnir Joe og Anthony Russo sem eru einna þekktastir fyrir gerð Avengers-myndanna Infinity War og Endgame og svo Captain America-myndarinnar Civil War. Báðir eru þeir framleiðendur ásamt aðalleikaranum Chris Hemsworth. Saman skrifuðu svo bræðurnir söguna og byggðu hana á eigin teiknimyndabók, Ciudad, sem þeir sömdu ásamt Ande Parksog gáfu út með teikningum eftir Fernando Leon Gonzalez. Leikstjóri er Sam Hargrave sem hér leikstýrir sinni fyrstu mynd en hann hefur verið yfirmaður áhættuatriða í fjölmörgum þekktum myndum, þ. á m. myndum Russo-bræðranna, Deadpool, Thor: Ragnarök og fleirum.

Misjöfn viðbrögð

Myndin hefur reyndar ekki gert neitt sérstakt mót í heildina séð hjá gagnrýnendum sem gefa henni aðeins 56/100 í meðaleinkunn á Metacritic.com. Þó gefa nokkrir henni fína dóma og hrósa m.a. Chris Hemsworth í hástert fyrir frammistöðuna í aðalhlutverki söguhetjunnar og málaliðans Tylers Rake, svo og indversk-ástralska leikaranum Randeep Hooda fyrir sitt framlag. Einnig þykja áhættuatriðin afar góð.

Það sem virðist fara öfugt í þá gagnrýnendur sem draga meðaleinkunnina niður er þunnur söguþráður þegar upp er staðið og of mikið ofbeldi. Almennir áhorfendur hafa hins vegar verið á sama máli og jákvæðu gagnrýnendurnir og gefa myndinni 6,8 í meðaleinkunn á Imdb.com sem þykir allgott með tilliti til að einkunnargjafar þar eru nú orðnir 80 þúsund talsins. Og það eru auðvitað áhorfendur sem skipta máli í þessu sambandi, ekki gagnrýnendur.

Sendir áhorfendum kveðju og þakkir

Chris Hemsworth er a.m.k. mjög sáttur við viðtökurnar og ákvað að senda þeim sem séð hafa myndina persónulega kveðju í gegnum Instagram-reikninginn sinn, en kveðjuna má sjá hér fyrir neðan. Þar gefur hann einnig sterklega í skyn að Tyler Raker muni snúa aftur áður en langt um líður. Sjáið þessi hressu skilaboð frá Chris og svo stiklu myndarinnar þar fyrir neðan: