Meistaraneminn og áhrifavaldurinn Amairis Rose er með tæplega fjörutíu þúsund fylgjendur á Instagram. Hún hefur skotið ansi mörgum skelk í bringu með myndum og myndböndum frá fríi sínu í Sambíu í desember síðastliðnum.

Hún ákvað að heimsækja Devil’s Pool, eða Djöflapoll, sem er á brún hinna mikilfenglegu Viktoríufossa. Þó að fossarnir séu hvorki þeir hæstu né breiðustu í heimi vill fólk meina að þeir séu þeir mestu, en Djöflapollur er í um fimm hundruð metra hæð. Rose birti myndir og myndbönd af sér þar sem hún sést á brún fossanna og vatnið streymir fram af ógnarkrafti. Má með sanni segja að þetta sé mikið glæfraverk sem hefur vakið óhug meðal margra. Rose segir í samtali við Metro að hún hafi aldrei verið í lífshættu.

„Þetta var einfaldlega stórkostlegt. Ég elska að ferðast og fara út fyrir boxið. Það lætur mann meta lífið. Í fyrstu lét ég neikvæðar athugasemdir fara í taugarnar á mér en nú skil ég að þetta fólk veit ekki betur og það er glatað fyrir það. Ekki fyrir mig því ég skemmti mér frábærlega,“ segir hún.

„Ég var í Sambíu til að halda upp á 25 ára afmælið mitt og dvaldi þar í tíu daga með frænku minni. Þetta var mest spennandi ferð sem ég hef farið í. Ég get ekki beðið eftir að geta farið í fleiri ferðir og ég er spennt fyrir því að reyna að toppa þessa lífsreynslu.“

Fylgjendur Rose eru margir hverjir ekki parsáttir við þetta athæfi hennar og fordæma hana fyrir að hafa svo slæm áhrif á ungt fólk.

„Hún lagði sig í háska svo hún gæti orðið fræg á netinu,“ skrifar einn fylgjandi og annar bætir við að hún sé að hvetja „ungt fólk til að leggja lífið að veði fyrir „like“.

„Ég fékk kvíðakast við að horfa á þetta!“ skrifar enn annar fylgjandi Rose. „Er þér sama um að þú sért að hvetja ungt fólk til að hætta lífinu fyrir „like“ og fylgjendur?“ bætir annar við.

Hér fyrir neðan má sjá færsluna umdeildu: