Tónleikarnir One World: Together At Home fóru fram síðustu helgi, en þá skemmtu frægustu tónlistarmenn heims veröldinni á erfiðum COVID-19 tímum. Meðal þeirra sem tóku lagið heima í stofu var tónlistarkonan Taylor Swift. Hún flutti lagið Soon You’ll Get Better, en rík saga er á bak við lagið – saga sem kannski ekki allir þekkja.

Ballaðan Soon You’ll Get Better er af nýjustu plötu Swift, Lover sem kom út í ágúst í fyrra. Er Swift flutti lagið á heimatónleikunum síðustu helgi virtist hún halda aftur af tárunum, og skal engan undra. Lagið samdi hún um móður sína og baráttu hennar við krabbamein. Raunar hafði Swift eitt sinn sagt við aðdáendur sína að hún myndi aldrei flytja lagið fyrir áhorfendur því það hefði verið eitt af því erfiðasta sem hún hafði gert að semja lagið.

„Það var erfitt að semja það. Það er erfitt að syngja það. Það er erfitt að hlusta á það. En stundum er tónlist svoleiðis. Stundum er hún ekki um það sem er þægilegt,“ sagði Swift við aðdáendur í fyrra.

En um helgina lét hún vaða til að safna peningum í báráttunni við kórónuvírusinn, en tæplega 130 milljónir dollara söfnuðust í tengslum við One World: Together At Home, sem haldnir voru í samstarfi við Alþjóðheilbrigðismálastofnunina og Sameinuðu þjóðirnar.

Flutning Swift á laginu angurværa vakti mikla athygli og meðal þeirra sem hrósuðu Swift fyrir að deila því með heiminum var söngkonan Lady Gaga.

Krabbamein og heilaæxli

Swift opinberaði það árið 2015 að móðir sín, Andrea Swift, væri að berjast við krabbamein, án þess að gefa á því nánari útskýringar. Móður hennar batnaði en í mars á síðasta ári sneri það aftur þegar að Swift var við tökum á heimildarmyndinni Miss Americana, sem nálgast má á Netflix. Snemma á þessu ári sagði Swift frá því að móðir hennar hefði greinst með heilaæxli.

„Hún var í lyfjameðferð, sem er alveg nógu erfitt að ganga í gegnum. Á meðan á því stóð fannst heilaæxli,“ sagði Swift í samtali við Variety snemma á þessu ári. „Einkenni heilaæxlisins er eitthvað sem við höfum ekki séð áður í krabbameinsmeðferðinni. Þannig að þetta hefur verið erfiður tími fyrir okkur sem fjölskyldu.“

Swift fór ekki nánar út í þennan fjölskylduharmleik er hún flutti lagið á tónleikunum síðustu helgi. Hún hefur hins vegar látið til sín taka í baráttunni gegn COVID-19 og hefur hvatt aðdáendur sína ötullega til að halda tveggja metra fjarlægð. Þá hefur hún gefið aðdáendum í fjárhagskröggum fjárhagsaðstoð, stutt ýmis góðgerðarsamtök og hætt við alla tónleika og uppákomur á þessu ári.

„Gerið það, verið heilbrigð og örugg,“ skrifarði Swift á Twitter í síðustu viku. „Ég sé ykkur á sviði um leið og ég get en núna er mikilvægt að halda sig í sóttkví, í þágu okkar allra.“

Hér fyrir neðan má sjá tónleikana One World: Together At Home í heild sinni: