Mynd: Litla Hönnunarbúðin

Uppboðið, sem er haldið í Litla Gallerý inn af húsakynnum Litlu Hönnunarbúðarinnar, hófst föstudaginn 2. október og mun sýningin standa til 17. október. Á þeim tíma munu gestir og gangandi geta boðið í verkin, og allur ágóði mun renna til Mæðrastyrksnefndar Hafnarfjarðar, að því er fram kemur á Facebook-síðu viðburðarins.

„Hugmyndin kviknaði í september, um það leyti sem búðin fagnaði sex ára afmæli sínu,“ segir Sigríður Margrét Jónsdóttir, eigandi verslunarinnar. „Okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt í október og niðurstaðan var að  vera með styrktaruppboð. Við höfðum samband við Ástu hjá Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar og þær tóku mjög vel í þetta.“

Á uppboðinu má finna úrval verka eftir íslenskt listafólk, sem allt gaf vinnu sína til uppboðsins. Mest er um myndlist, en einnig má finna gullfallega högglist, skartgripi og aðra listmuni. Fyrir þá sem ekki sjá sér fært að mæta í eigin persónu er einnig hægt að panta verk í gegnum Facebook-albúm Litla Gallerýs.

Litla Gallerý og Litla Hönnunarbúðin eru til húsa við Strandgötu 19 í Hafnarfirði og er rýmið opið frá 12-18 virka daga og 12-16 laugardaga. Uppboð og sýning munu standa til 17. október.