Fulltrúar Gaze Seed Company í Nýfundnalandi í Kanada segjast hafa verið frekar undrandi en óneitanlega dálítið skemmt þegar Facebook neitaði þeim á dögunum um birtingu á auglýsingu, sökum þess að ljósmynd af lauk hafði verið merkt sem „beinlínis kynferðisleg.“

Jackson McLean, stjórnandi hjá fyrirtækinu, sagði að fyrirtækið hefði sent Facebook auglýsingu fyrir walla walla-lauk þeirra, en myndinni sem send var inn — sem innihélt einungis lauk í körfu — var hafnað af samfélagsmiðlinum.

„Við fengum skilaboð um daginn þess efnis að þetta væri „beinlínis kynferðisleg“ mynd og að hún væri bönnuð frá síðunni,“ sagði McLean. „Ætli það sé ekki eitthvað við þessi kúlulaga form sem gæti  verið hægt að mistúlka sem brjóst eða eitthvað, einhverskonar nekt.“

„Mér fannst þetta bara fyndið,“ sagði hann. „Þú þyrftir að hafa frekar frjótt ímyndunarafl til að sjá þessa mynd og fá eitthvað kynferðislegt út úr henni… „Beinlínis kynferðislegt,“ eins og það sé ekki hægt að sjá neitt annað út úr þessu.“

Gaze Seed Company áfrýjaði úrskurðinum. Talskona Facebook í Kanada, Meg Sinclair, staðfesti síðar að birtingarbannið á auglýsingunni hefði verið sökum villu í algrími Facebook.

„Við notum sjálfvirka tækni til að útiloka nekt af vefsvæðunum hjá okkur, en stundum þekkir hún ekki walla walla-lauk frá, hérna, þið vitið,“ sagði Sinclair við The National Post. „Við höfum sett auglýsinguna aftur inn og biðjumst velvirðingar á óþægindunum.“

Sjá má Facebook-færslu fyrirtækisins um málið hér fyrir neðan: