Hinn sívinsæli Leðurblökumaður er að fá sitt næsta „reboot“ svokallað (endursögn og endurtúlkun á sögupersónunni og heim hennar) einhvern tímann á næsta ári, og er það leikarinn Robert Pattinson sem mun fara með hlutverk riddarans myrka að þessu sinni. Nýverið kom út fyrsta stiklan úr myndinni, þar sem við fáum að berja þessa nýjustu útgáfu hetjunnar augum í fyrsta sinn, ásamt nokkrum kunnuglegum óvinum og bandamönnum:

Augljóst er að hér er lítill afsláttur gefinn á myrkrinu sem fylgt hefur persónunni í gegnum síðustu birtingarmyndir sínar, en þó virðist einnig gæta áhrifa frá eldri sögum sem lítið hafa sést á síðustu árum. Þar má helst nefna að hér lítur út fyrir að loksins sé að koma rannsóknarspæjarasaga: Leðurblökumaðurinn hefur alla tíð verið kallaður heimsins besti spæjari („The World’s Greatest Detective“), og snerust sögur um hann hér í fyrri tíð að miklu leyti um rannsóknarhæfileika og yfirnáttúrulega ályktunargáfu hans. Lítið þykir þó hafa verið um það í þeim bíómyndaseríum sem komið hafa út um hann áður.

Leikstjórinn, Matt Reeves, sagði að auki á sýndarráðstefnunni DC FanDome á dögunum að Leðurblökumaðurinn sem um ræðir hér sé aðeins á öðru ári sínu í skikkjunni, og sé þar af leiðandi yngri og óreyndari en sá í fyrri seríum (sem var alla jafna orðinn vel ráðsettur í hetjuhlutverkinu.)

Einnig vakti tónlistin í stiklunni gríðarlega athygli meðal aðdáenda, en þar var notast við gamla Nirvana-lagið „Something In The Way“ með nýrri og heldur dramatískri útsetningu.