Athygli hefur vakið að hönnun plakats sem forsetaframbjóðandinn Guðmundur Franklín Jónsson hefur notað í undirskriftaherferð sinni hér á landi svipar mjög til hönnunar Tandem-markaðs- og auglýsingafyrirtækisins í New York, en starfsmenn þess unnu að herferð Alexandriu Ocasio Cortez þegar hún bauð sig fram til þingmennsku í New York 2018.

Ekki er útilokað að Guðmundur hafi einnig ráðið Tandem til starfa fyrir sig eða að hann, eða hönnuður hans, hafi fengið leyfi til að nota hönnunina. Við höfum því sent Guðmundi fyrirspurn um málið og bíðum svars.

Þess má geta að Alexandria, sem er þrítug og telst talsvert langt til vinstri innan bandaríska demókrataflokksins, sigraði í kosningunni 2018 og hefur eftir það látið talsvert að sér kveða í neðri deild bandaríska þingsins eins og mörgum er kunnugt um.