Flestum finnst ekkert sérstaklega gaman að þrífa og oft vex það fólki í augum að taka til hendinni heima við. Það verður hins vegar afar létt að þrífa heimilið hátt og lágt ef maður temur sér nokkur einföld handtök á hverjum degi. Þannig tryggir maður að heimilið sé ávallt fínt og að lítið mál sé að þrífa það reglulega.

Hreinn inngangur

Það er ástæða fyrir því að flest rusl og drasl safnast saman í inngangi hússins. Allt heimilisfólkið gengur um ganginn, oft mörgum sinnum á dag og því er fljótt að safnast upp alls konar óþarfa drasl; skór úti um allt, yfirhafnir á rúi og stúi, lyklar, bréf, teikningar úr leikskólanum og þar fram eftir götunum.

Það er góð regla að halda innganginum snyrtilegum og þjóðráð að gera það sitt fyrsta verk eftir kvöldmatinn að raða skóm og yfirhöfnum og ganga frá því sem á ekki heima í ganginum. Einnig er þjóðráð að strjúka yfir helstu yfirborð með rakri tusku og jafnvel ryksuga gólfið annan hvern dag.

Borðfletir í eldhúsinu

Annar staður þar sem ansi margt stoppar við til styttri eða lengri tíma. Við erum að tala um mat, bréf, lykla, bakpoka, hvað sem er. Það gerir gæfumun að þurrka af borðflötunum í eldhúsinu í lok hvers dags því það bætir skap að ganga inn í tiltölulega hreint eldhús á morgni hverjum.

Skafa á flísarnar

Gott er að geyma gluggasköfu á baðherberginu og renna henni yfir gler og flísar eftir hverja sturtu. Þá eru veggir og gler fljót að þorna sem lágmarkar blettamyndun og önnur óhreinindi.

Blessaður þvotturinn

Það er gjörsamlega glatað að stútfylla þvottakörfurnar og einsetja sér svo að þvo allt á einum degi. Það er dæmt til að mistakast og þýðir bara eitt – heimilið fyllist af þvotti sem enginn nennir að ganga frá. Betra er að þvo reglulega og jafnvel minna í einu. Einnig er mjög gott að setja krökkunum það fyrir að taka upp óhreinan þvott á gólfinu í lok hvers dags og skila honum í réttar þvottakörfur, en þetta á auðvitað við um fullorðna líka.

Uppvaskið

Stundum er freistandi að skilja skítugu diskana eftir í vaskinum yfir nóttu en það eru stór mistök. Það er svo einfalt að vaska upp eða fylla uppþvottavélina í lok dags. Framtíðar þú þakkar þér fyrir það þegar þú vaknar á morgun!

Helluborðið

Það er ýmislegt sem gengur á í eldhúsinu og því er þjóðráð að strjúka yfir helluborðið eftir hverja máltíð. Annars geta blettirnir orðið ansi þrjóskir.

Sópa eldhúsgólfið

Jú, vissulega er mikið um eldhúsið á þessum lista en það er ekki að ástæðulausu. Eldhúsið er hjartað í húsinu og ýmislegt sem fellur á gólfið. Þá er kjörið að sópa eða moppa yfir eldhúsgólfið eftir síðustu máltíð kvöldsins til að tryggja að eldhúsið sé snyrtilegt.