“He was now in that state of fire that she loved. She wanted to be burnt.”
Anais Nin

Ljónið geislar af fegurð og kynþokka í nóvember og ekki síst í tjáningu og skrifum.

Málefni sem varða fjölskyldu, tekjur og eignamál og voru í skoðun í október, ættu að sjá einhvers konar lendingu eftir þriðja nóvember þegar Merkúr fer fram á við. Merkúr liggur á eigin vettvangi og skapar samskiptaríkan mánuð, mögulega ferðalög og töluvert af „snatti“, skrifum og mögulega umsóknar- eða skýrsluvinnu. Þetta verður sérstaklega áberandi til miðs mánaðar á meðan sólin dvelur þar við. Samskipti og skriftir gætu verið á döfinni eða hvers kyns skjalafrágangur og skipulagsvinna.

Þriðja hús orka er hratt tempó og fyrstu tvær vikur nóvember ættu að vera hraður og annasamur tími. Eftir sextánda færirðu þig meira inná orku heimilisins, inní hreiðurgerð og ferð að vinna heima við og verður fær um að skapa þér hlýja og góða skel fyrir komandi vetrartíð. Hjartans mál, móðir þín og þínir nánustu ættingjar spila þarna lykilhlutverk og verða þema til miðs desember. Í nóvember gæti fjármagnsstuðningur komið inn, sér í lagi eftir snúning Mars eftir fjórtánda þessa mánaðar.