Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, flutti ávarp seint í gær að íslenskum tíma fyrir framan Hvíta húsið í Washington þar sem hann hótaði því m.a. fullum fetum að beita bandaríska hernum gegn þeim sem í skjóli mótmælanna þar í landi hafa notað tækifærið til margvíslegra skemmdarverka og stuldar úr verslunum.

Við upphaf ávarpsins stóðu fjölmargir friðsamir mótmælendur fyrir framan og í kring um Hvíta húsið og voru þeir fyrir utan þau mörk sem sett höfðu verið varðandi nálægð við forsetabústaðinn.

Skyndilega, í miðri ræðu forsetans og án nokkurrar sýnilegrar ástæðu, hófst áhlaup lögregl­unn­ar á þá mótmælendur sem stóðu á götunni fyrir framan svokallað Lafayette-torg, en það er beint fyrir framan Hvíta húsið. Varpaði lögreglan einnig táragasi inn í hópinn og skaut gúmmíkúlum á fólkið án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Á skömmum tíma hafði svo gatan fyrir framan torgið verið rudd.

Eftir að ræðu forsetans lauk kom ástæðan fyrir þessari skyndilegu árás lögreglunnar í ljós. Trump vildi láta taka af sér mynd fyrir framan St. John´s biskupakirkjuna, eða Jóhannesar­kirkju eins og hún er nefnd á íslensku, og til þess að komast þangað þurfti hann að ganga frá Hvíta húsinu, yfir Lafayette-torgið og yfir götuna þar sem mótmælendurnir sem lögreglan hafði skömmu áður ráðist á höfðu staðið.

Hér fyrir neðan má sjá myndband úr fréttatíma Andersons Cooper sem hefst strax eftir ræðu forsetans og sýnir Trump ganga ásamt fylgdarliði að Jóhnnesarkirkjunni og stilla sér þar upp með biblíuna á lofti. Cooper ræðir hér við fréttamanninn Jim Acosta og á mínútu 4:23 skiptir hann yfir til fréttakonunnar Kaitlan Collins sem ásamt teymi sínu náði myndum af þessari fyrirvaralausu árás lögreglunnar á mótmælendur.

Hvaða afleiðingar og áhrif þetta atvik á eftir að hafa kemur í ljós en það er nokkuð ljóst að það á a.m.k. ekki eftir að lægja öldurnar í landinu. Segja sumir að í raun sé það nákvæmlega það sem Trump vill því það sé þekkt fyrirbrigði að stuðningur við yfirvald eykst oft tímabundið á átakatímum og að tilgangurinn sé að auka fylgi Trumps.