Rithöfundurinn Neil Gaiman. Skjáskot af masterclass.com

Breski rithöfundurinn Neil Gaiman (f. 10. nóvember 1960) er margverðlaunaður fyrir fjölbreytt ritverk sín sem innihalda smásögur, skáldsögur, teiknimyndasögur, heimildarrit, þýðingar, leikverk og kvikmyndahandrit, en á meðal þekktra verka hans má nefna The Sandman, Coraline, Stardust, American Gods, The Graveyard Book, Beowulf, Princess Mononoke (þýðing) og The Ocean at the End of the Lane sem hlaut m.a. bresku bókmenntaverðlaunin (National Book Awards) sem besta skáldsaga ársins 2013.

En Neil hefur líka gaman af að kenna öðrum skapandi skrif og hvetja til þeirra, heldur oft sín eigin námskeið og er einn þeirra rithöfunda sem er áberandi á kennslusíðunni Masterclass.com. Þar fer hann á skipulegan hátt í gegnum það sem fólk þarf fyrst og fremst að huga að ef það langar að ná tökum á skapandi skrifum og gerast rithöfundar. Eftirfarandi er byggt á einni kennslustund hans sem nefnist The Compost Heap eða Safnhaugurinn og gæti hjálpað mörgum að hefjast handa við að skrifa sína fyrstu skáldsögu.

Fyrst ber þó að nefna að rétt eins og með allar aðrar listir þá er fólk misjafnlega af Guði gert og hefur bæði mismunandi og misjafna hæfileika. Tökum dæmi um einhvern sem skarar fram úr í gítarleik. Ástæðan fyrir því að hann/hún skaraði fram úr getur verið af þrennum toga:

Í fyrsta lagi gæti viðkomandi verið fæddur gítarleikari, þ.e. með meðfædda snilligáfu á sviði gítarleiks. Sumum er það bara einfaldlega í blóð borið að skilja tónlist og læra á hljóðfæri. Það er eins og það gerist bara sjálfkrafa og með æfingu er slíkt fólk fljótt að skara fram úr öðrum á sínu sviði og fljótara en aðrir. Þessi hópur er samt mjög fámennur.

Í öðru lagi eru þeir sem eru kannski ekki gæddir snilligáfunni sem þeir í fyrsta dæminu hafa en búa að annars konar snilligáfu sem er í raun ekkert síðri: Brennandi og ódrepandi áhuga og elju. Það þarf enginn að hvetja slíkt fólk til að skara fram úr í því sem það hefur áhuga á að gera eða læra og ef áhuginn beinist t.d. að því að verða góður í gítarleik þá er það nákvæmlega það sem gerist. Þessi hópur er líka frekar fámennur þótt hann sé vissulega fjölmennari en sá fyrsti.

Flestir góðir gítarleikarar tilheyra hópi númer þrjú, þ.e. þeim sem eru hvorki gæddir meðfæddri tónlistarsnilligáfu né þeim ódrepandi áhuga og elju sem fær hóp númer tvö til að æfa sig og æfa af nánast meðfæddri löngun. Þeir urðu góðir gítarleikarar vegna þess að þeir voru tilbúnir að beita sig þeim aga sem til þurfti og æfa sig á hverjum degi í stað þess að eyða þeim tíma í eitthvað annað. Þeir sem fara þessa leið að takmarkinu, og langflestir góðir gítarleikarar hafa þurft þess, uppgötva síðan af eigin reynslu að æfingin skapar svo sannarlega meistarann. Og eftir því sem þeir verða betri því meiri líkur eru á að þeir öðlist áhugann og eljuna sem fólkið í hóp númer tvö hefur innbyggt. Þar með er sá björn yfirleitt unninn.

Hópur númer fjögur, sem flest fólk tilheyrir, eru svo þeir sem segjast vilja læra á gítar en gera aldrei neitt í því. Þeir verða auðvitað aldrei góðir gítarleikarar. Auðvitað eru þeir líka margir sem hafa engan áhuga á að læra á gítar til að byrja með auk þeirra sem vilja bara læra vinnukonugripin svokölluðu og hafa engar áætlanir um að gera gítarleik að starfi. Það er allt til í þessu.

En hvað hefur allur þessi gítarleikur að gera með ritstörf og skapandi skrif? Jú, það gildir að stærstum hluta til það sama um þau og gítarleik. Örfáir hafa meðfædda snilligáfu á sviði ritstarfa. Fleiri, en samt fáir, eru gæddir ódrepandi áhuga og elju, skrifa og skrifa, læra og lesa og skrifa svo meira og meira þangað til allt smellur saman í bók og bækur.

Byrjaðu! Mynd: Danielle MacInnes / Unsplash

Hins vegar gildir annað um þá sem eru í þriðja hópnum, þ.e. þeim sem þurfa að fara sjálfsaga-leiðina og ákveða fyrirfram að setjast niður og æfa sig á hverjum degi uns þeir ná árangri. Munurinn er að sá sem æfir sig á gítar lendir aldrei í vandræðum með að spila á meðan sá sem sest niður til að æfa sig í að semja sögu lendir iðulega í vandræðum með um hvað sagan eigi að vera. Ef það liggur ekki fyrir þá gerist það oft að „æfingin“ bæði byrjar og endar á því að horfa á autt blað eða auðan tölvskjá. Í því felst auðvitað engin æfing þegar upp er staðið og á þessu hafa margir strandað og lagt að lokum plön um að skrifa bók á hilluna.

Þetta er ekki það sem kallað er ritstífla heldur er þetta einfaldlega skortur á æfingahugmyndum því auðvitað skrifar sá ekkert sem veit ekki um hvað hann á að skrifa. Ritstífla er annars eðlis. Þá lendir rithöfundurinn fyrst og fremst í vandræðum með að orða eða koma frá sér hugmyndinni sem hann er með og annað hvort byrja á verkinu eða halda því áfram.

Og hér er komið að lyklinum sem talað er um í fyrirsögn þessarar greinar: Hvað gera menn til að tryggja að þá skorti aldrei hugmynd til að skrifa um þegar þeir setjast niður til að æfa sig … sem aftur leiðir til þess að hver æfing skilar árangri?

Lykillinn felst í að vera alltaf með skriffæri og blað eða litla skrifblokk á sér og skrifa niður þessa litlu hluti sem gerast í kringum þig á hverjum degi og hvernig þú bregst við þeim. Málið er að svo framarlega sem þú ert vakandi ertu nánast alltaf að hugsa eitthvað, sjá eitthvað og bregðast við einhverju. Skrifaðu það niður í eins stuttu máli og þú getur, en samt þannig að þegar þú sest niður að æfa þig ferðu létt með að rifja hugsunina/atvikið/viðbrögðin upp.

Dæmi:

Þú ert í strætó og sérð út um gluggann tvær ljóshærðar konur sem eru að deila um eitthvað. Þú veltir því nánast ósjálfrátt fyrir þér í eitt augnablik hvort þetta séu mæðgur og um hvað þær séu að deila. Í stað þess að gleyma þessu bara eins og flestir myndu gera, fiskaðu skrifbókina og pennann upp úr töskunni eða vasanum og skrifaðu stikkorð þessa atviks niður.

Þú sérð kött og finnst hann sérstakur á litinn. Skrifaðu niður litinn á kettinum og hvar þú sást hann. Var hann kannski líka hræddur?

Þú ert á kassanum í Bónus og skammar þig í huganum fyrir að hafa ekki tekið margnota pokann sem þú keyptir með þér. Skrifaðu það niður þegar þú ert komin(n) út.

Þú tekur bensín og finnst að það ætti að vera ódýrara miðað við frétt sem þú last um að verðið hafi snarfallið erlendis. Skrifaðu það í bókina.

Þú finnur glerbrot á gólfinu en manst samt ekki eftir að neitt gler hafi brotnað og spyrð þig hvaðan þetta glerbrot sé þá eiginlega komið.

Og svo framvegis … kannski 5-10 svona litlar hugmyndir/hugsanir/viðbrögð á dag.

Þegar þú síðan sest niður til æfingar skaltu lesa þetta yfir og reyna svo að orða hverja hugmynd/hugsun/viðbragð upp á nýtt og búa til örsögu um hvert þeirra. Hver saga má vera eins stutt og þú vilt en hafðu enga þeirra lengri en um 60 orð eða 300 stafi og 3-4 setningar.

Konurnar sem þú sást deila: Giskaðu á um hvað þær voru að deila og segðu frá því hvað það var við þær, útlit og fas t.d., sem fékk þig til að halda að þær gætu verið mæðgur.

Hvaðan var kötturinn sem þú sást að koma? Var hann með ól? Var hans kannski hræddur vegna þess að hann var týndur eða hafði einhver skömmu áður sparkað í hann? Skáldaðu upp í stuttu máli hvað kötturinn var að gera (eða lenti í) rétt áður en þú sást hann og rétt eftir að þú varst farin(n).

Hvenær keyptirðu margnota pokann? Hvernig er hann á litinn? Er auglýsing á honum eða rann andvirði hans til góðgerðarmála?

Skáldaðu upp hvaðan glerbrotið er komið.

Segðu frá því hvað þér finnst um bensínverð og hvort þú munir hvað lítrinn kostaði fyrir 10 árum.

Og svo framvegis, 5-15 sögur á hverri æfingu.

Vistaðu svo þessar örsögur í tölvunni þinni sem Safnhaugur 1.

Gerðu svo þetta sama á hverjum degi í fjórar vikur og vistaðu hvern „Safnhaug“ með nýjum tölustaf. Alls ekki opna og lesa fyrri safnhauga þegar þú býrð til nýjan. Athugaðu að örsögurnar geta komið úr öllum áttum reynslu þinnar, eitthvað sem þú sérð, lest, færð tilfinningu fyrir, dettur í hug, misskilur, hrífst af, hrífst ekki af, hlærð að, tárast yfir, finnur fyrir líkamlega o.s.frv., en geta líka sprottið af reynslu og frásögum annarra,  eða bara einhverju sem þú ímyndar þér út í loftið og þarf ekki að byggja á neinu sérstöku. Aðalatriðið er að þú notir sem flest tækifæri til að skrifa örsögu og vista hana.

Eftir fjórar vikur geturðu ekki fyrir þitt litla líf rifjað upp nema að örlitlu leyti um hvað þú skrifaðir í fyrstu fjórtán skjölunum. Opnaðu þau nú hvert af öðru og kópí/peistaðu allar örsögurnar í þeim saman í eitt skjal og vistaðu það sem Safnhaugur A. Haltu svo áfram með daglegu skrifin og æfingarnar og eftir fjórtán daga í viðbót skaltu kopí/peista saman sögurnar í skjölum 15-28 í Safnhaug B. Og svo framvegis, 14 skjöl af örsögum í einu, þar til þú ert kominn með fjögur Safnhaugsskjöl, A, B, C og D. Opnaðu þau þá öll og kópí/peistaðu allar sögurnar í þeim í nýtt skjal sem heitir Safnhaugurinn.

Og nú gerist galdur sem aðeins þeir uppgötva sem gera þetta í raun. Þegar þú lest yfir Safnhauginn allan, sem nú ætti að innihalda minnst 250 örsögur (því fleiri því betra) sem þú bjóst til en manst samt ekki eftir að hafa skrifað nema að litlu leyti, þá muntu uppgötva að allar, eða a.m.k. margar af þessum litlu sögum þínar byrja ekki bara að tengjast innbyrðis í eina frásögn (eða nokkrar smásögur), heldur innihalda þær til samans bæði persónur og stíl. Þú ert í raun komin(n) með grunnefni í þína fyrstu skáldsögu eða smásögu(r) og getur byrjað að raða í hana/þær. Um leið muntu finna hvernig Safnhaugurinn byrjar að kveikja upp í sköpunargáfunni og næra hana.

Haltu samt áfram að skrifa örsögurnar á hverjum degi og vista þær (og gleyma þeim) eins og áður hefur verið lýst. Því meiru sem þú safnar því betra. Um leið safnar þú upp efni í næstu skáldsögur og um leið gerist það að örsögur þínar verða nánast ósjálfrátt mun hnitmiðaðri dag frá degi. Þú ert farin(n) að skilja um hvað þetta snýst, gerir það sem gera þarf á hverjum degi af sífellt meiri áhuga og elju og ferð að geta stýrt því mun betur í hvaða átt þú vilt fara. Viltu skrifa ævintýri? Þá byrja örsögurnar að verða ævintýralegar. Viltu skrifa vísindaskáldsögu? Þá byrja örsögurnar að verða dularfullar og framandi. Viltu skrifa spennusögu? Þá byrja örsögurnar að breytast í vísbendingar og gátur. Og svo framvegis.

Og áður en langt um líður ertu orðin(n) rithöfundur – eða a.m.k komin(n) langleiðina þangað!

Annað sem örsögurnar gera fyrir þig er að þær verða smám saman og sjálfkrafa að tillögum að orðum og orðalagi fyrir þig. Ef þú lendir einhvern tíma í því að finna ekki rétta orðið eða orðalagið þá eru miklar líkur á að lausnin leynist einhvers staðar í Safnhaugnum og því stærri og eldri sem hann er, því meiri líkur. Að lokum kemur svo að því að Safnhaugurinn sjálfur verður að endalausri uppsprettu nýrra hugmynda.

Ein aðvörun: Á meðan þú ert að byrja á þessu ekki sýna neinum örsögurnar og alls ekki pósta þeim t.d. á Facebook til að fá viðbrögð. Þú getur gert það síðar þegar þú veist betur um hvað þetta snýst, hvernig þessi aðferð verkar fyrir þig og hvernig örsögurnar kveikja upp í  sköpunargáfunni. Það brynjar þig fyrir hugsanlegri neikvæðni!

Forsíðumynd:  Christine Keller / Unsplash