Stór hluti fólks styðst við merkingar um síðasta söludag þegar ákveða skal hvort matur sé farinn að skemmast, en það er þó ekki það sem þeim er ætlað að segja til um. Yfirleitt fyrirstilla þær bara hvenær maturinn byrjar að tapa gæðum sínum, frekar en það hvenær hann byrjar að skemmast.

Þessi algengi misskilningur verður því til þess að við hendum árlega í ruslið þúsundum tonna af fullkomlega ætum mat, allt út af litlum merkimiðum sem eru einungis að reyna að segja þér að kálið þitt sé ekki alveg brakandi ferskt lengur, og brauðið þitt ekki alveg eins mjúkt og það var.

Til að reyna að sporna við þessari gríðarlegu sóun hyggst breska fyrirtækið Too Good To Go nú setja á markað svokallaða „Smell-By“ lyktarmerkimiða. Hér er um að ræða lyktarlímmiða eins og margir muna eflaust eftir að safna sem lítil börn, nema tilgangurinn hérna er að þjálfa nef okkar upp í að vita nákvæmlega eftir lykt hvenær matur er raunverulega tekinn að skemmast.

Fyrstu fjórir miðarnir ná yfir fjórar tegundir fæðu sem lenda gjarnan í mikilli sóun af þessu tagi – egg, appelsínusafa, bjór og hafra. Fyrirtækið ætlar sér að vinna með smásölum í framtíðinni við að koma miðunum á umbúðir í verslunum, en þangað til er hægt að panta þá á heimasíðu fyrirtækisins.