Boubou Niang, sem notast við listamannsnafnið Boubou Design, er enginn venjulegur listamaður. Aðalsmerki hans er að geta málað með nánast hverjum einasta hlut sem hann kemst yfir. Ekki nóg með það, heldur getur hann líka málað með lokuð augun, á hvolfi eða standandi bak við strigann.

Niang, sem er frá Dakar í Senegal, er ekki bara frumlegur í nálgun sinni á myndlistina heldur býr hann yfir nánast fullkominni tækni. Hann þarf rétt aðeins að líta á andlit í stundarkorn til þess að geta skapað það á striganum með magnaðri nákvæmni, og getur til þess notast við hvaða hlut sem handhægur er.

Niang (eða Boubou eins og hann er jafnan kallaður) varð fyrst frægur á internetinu fyrir að mála myndir af frægu fólki, og er margt þessa fólks orðið að einörðum aðdáendum hans. Þar á meðal má telja Dwayne „The Rock“ Johnson, en Boubou gerði myndina af honum með því að dýfa handlóði í málningu og mála með því:

Johnson varð svo yfir sig hrifinn af verkinu að hann dreifði því vítt og breitt um samfélagsmiðla, og fékk myndskeiðið yfir 12 milljón áhorf á Instagram. Eins og staðan er í dag á Boubou rétt um tvær milljónir áskrifenda á Instagram.

Annað frægt fólk sem Boubou hefur málað eru meðal annars LeBron James, sem hann gerði með því að drippla körfubolta:

Barack Obama, sem hann gerði með reiðhjóli. Já, reiðhjóli.

Floyd Mayweather gerði hann að sjálfsögðu með boxhönskum:

Og leikarann heitna Chadwick Boseman, sem gerði garðinn frægan í titilhlutverki sínu í myndinni Black Panther en lést úr krabbameini á dögunum, málaði hann með blómvendi.

Til að fylgjast með þessum staka meistara og sjá hvað hann gerir næst er um að gera að fylgja honum á Instagram-síðu hans, sem má finna hér.