Uppfært: Því miður þurfti að fresta geimskotinu vegna veðurs og verður reynt aftur á laugardaginn, þ.e. 30. maí.

Í kvöld kl. 20:33 að íslenskum tíma (13:33 PT og 16:33 ET) verður tveggja manna geimfarinu Crew Dragon skotið á loft frá Kennedy-geimstöðinni í Flórída með eldflauginni Falcon 9, en geimskotið, sem nefnist Demo-2, er samstarfsverkefni NASA og SpaceX. Um er að ræða fyrsta mannaða geimskotið í Bandaríkjunum síðan geimskutlunni Atlantis var skotið upp frá sama stað í júlí 2011 og um leið er þetta fyrsta mannaða geimskotið sem SpaceX stendur að.

Bob Behnken and Doug Hurley
Geimfararnir Bob Behnken og Doug Hurley eru klárir í geimferðina.

Um borð verða geimfararnir Bob Behnken og Doug Hurley en sá síðarnefndi var einnig í áhöfn Atlantis 2011. Geimfarið mun einnig bera margvíslegar vistir og búnað til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar sem er á braut um Jörðu.

Tilgangur ferðarinnar er ekki síður að láta reyna á Crew Dragon-geimfarið sem er hannað af SpaceX, en það hefur margoft verið notað til vöru- og vistaflutninga og reynst vel. Þótt geimfararnir séu aðeins tveir í þessu fyrsta mannaða fari er Crew Dragon hannað fyrir allt að sjö manns. Ef vel tekst til verður það notað fljótlega á ný, jafnvel á þessu ári, og þá mjög sennilega fullmannað.

Gangi allt upp líta Bandaríkjamenn einnig til þess að þar með þurfa þeir ekki lengur að „kaupa sæti“ í Soyuz-geimförum Rússa sem hafa að mestu séð um að senda og sækja áhafnir til og frá Alþjóðlegu geimstöðinni á undanförnum árum.

Crew Dragon
Tölvuteiknuð mynd af Crew Dragon að tengjast Alþjóðlegu geimstöðinni.

Hafa ber í huga að veðrið gæti frestað geimskotinu, en það verður að vera nægilega gott, bæði á Kennedy-höfða og á hafsvæðinu þar sem Crew Dragon verður lent fari eitthvað úrskeiðis í geimskotinu. Þegar þetta er skrifað að morgni miðvikudags eru tæplega 70% líkur á að veðrið verði nógu gott á báðum stöðum.

Fari svo að fresta þurfi geimskotinu mun það fara fram á laugardag og ef það gengur heldur ekki verður aftur reynt á sunnudag.

Nánari upplýsingar um horfurnar og gang mála þegar líða tekur á daginn má t.d. nálgast á vefsíðu NASA, í YouTube-streyminu sem sjá má hér fyrir neðan og væntanlega einnig á vefsíðu SpaceX … þar sem einnig stendur til að sýna geimskotið beint  Sjálfsagt munu svo einnig fjölmargar fréttastöðvar og fleiri síður í Bandaríkjunum greina frá gangi mála.

Myndir frá NASA