Jonathan Pie er hugarfóstur enska uppistandsgrínistans Toms Walker og kom fyrst fram á sjónarsviðið í Bretlandi árið 2015. Segja má að hann hafi svo slegið í gegn alþjóðlega eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016 með sínu fyrsta YouTube-myndbandi þar sem hann útskýrði fyrir fólki á sinn hátt – og með hárbeittu háði – hvers vegna Donald Trump hefði unnið í kosningunum.  Vildu margir meina, og vilja enn, að þetta myndband sé langbesta stutta lýsingin á því hvers vegna Trump vann.

Allar götur síðan hefur Jonathan sent frá sér myndbönd öðru hvoru um málefni sem eru efst á baugi hverju sinni, aðallega samt stjórnmálatengdum. Þeim hefur öllum verið safnað saman á rás hans á You Tube og heimasíðunni JonathanPie.com. Einnig má benda áhugasömum á skemmtilegt viðtal við Tom Walker á CNN þar sem hann útskýrir m.a. fyrir viðmælanda sínum hvernig Jonathan varð til, hvaðan hann kemur og hvernig hann hugsar.

Nýjasta myndbandið

Nýjasta myndband Jonathans fjallar um svokallað Dominic Cummings-mál sem reitt hefur marga Breta til reiði að undanförnu, bæði andstæðinga stjórnarinnar og stuðningsfólk. Málið snýst í stuttu máli um að einn helsti aðstoðarmaður Borisar Johnson, Dominic Cummings, varð á dögunum uppvís að því að hafa brotið heimasóttkvíarskipun sem allir Bretar þurftu að sæta. Þykir mörgum hann þar með hafa sýnt bresku þjóðinni fingurinn og hefur sú krafa orðið hávær að honum verði vikið úr embætti – en það tekur Boris ekki í mál.

Þetta mál og tilfinningar reiða fólksins útskýrir Jonathan á sinn hátt í myndbandinu hér fyrir neðan og tekst eins og svo oft áður að lýsa bresku þjóðarsálinni á sinn einstaka, flugbeitta og háðska hátt. Kíkið á það: