Starf nokkurra skóla og leikskóla í Kópavogi hefur raskast mikið undanfarið, eiginlega verið í uppnámi síðan 9. mars bæði vegna samkomubanns en einnig vegna verkfalls Eflingar. Efling fer fram á sams konar samning og félagið gerði við Reykjavíkurborg, ríkið og Faxaflóahafnir og furða margir sig á því að samningsaðilar hafi ekki náð saman ennþá. Rétturinn til þess að fara í verkfall er hagsmunamál okkar allra en það má auðvitað ekki gleyma því að réttur barna til menntunar er skýr og sama á við um skyldur þess sem hana á að veita.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir- Bæjarfulltrúi í kópavogi

„Að mínu mati er ekkert annað í stöðunni en að þessi sveitarfélög geri sambærilegan samning við Eflingu og þegar hefur verið gerður af Reykjavíkurborg, ríkinu og Faxaflóahöfnum. Þetta er eitt atvinnusvæði og það er einfaldlega ekki réttlætanlegt að bjóða starfsfólki okkar lakari kjör. Við erum að tala um lægst launuðu störfin og löngu tímabæra leiðréttingu. Ef einhverjum var það ekki ljóst fyrir þá hefur Covid-19 faraldurinn sýnt okkur einmitt hve rosalega mikilvægri grunnþjónustu þetta starfsfólk sinnir.“

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi

 

Verkfallið hefur verið töluvert í umræðunni undanfarið bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Foreldrar, kennarar og fleiri hafa áhyggjur af velferð barna og unglinga og þeim áhrifum sem þessi röskun veldur. Það eru 4 vikur eftir af skólaárinu og skiptir sköpum að hægt sé að ljúka því á sómasamlegan hátt.

Röskunin er ekki bara námsleg, því staðan hefur áhrif á andlega og félagslega líðan nemenda og þann skaða bæta ekki samningar.

 

Innsýn í afleiðingar

Fréttanetið fór af stað til að fá innsýn í afleiðingar verkfalls og veiru á krakka og unglinga. Fyrirfram hefðu margir búist við því að þau væru að einhverju leiti ánægð að sleppa því að mæta í skólann en það er öðru nær hjá þessum sem við ræddum við en þau höfðu þetta að segja:

„Sumum finnst þetta fínt en mér finnst þetta glatað. Mér líður eins og eitthvað fólk úti í bæ sé að eyðileggja framtíðina mína.“
nemandi í 10. bekk, Kársnesskóla.

„Slæmt að verkfallið sé komið bara 2 dögum eftir að Samkomubanni lauk. Leiðinlegt að hitta ekki kennarana og vini, bíð eftir að komast í skólann aftur.“ –
nemandi í 9. bekk í Salaskóla.

„Leiðinlegt að hitta ekki vini í skólanum og gera hópverkefni. Samkomubannið nýbúið og stutt eftir af skólaárinu. Stutt í prófin og ég er hrædd um að gleyma því sem var kennt því það er svo langt síðan við við vorum í skólanum.“ – nemandi í 6. bekk í Salaskóla.

Leiðinlegt að vera ekki í skólanum. Veit ekki stundum hvað ég á að gera. Erfitt að læra bara heima og hitta ekki vinina. Sakna þess að hitta ekki kennarana og krakkana.“
nemandi í 4. bekk í Salaskóla.

„Ömurlegt. Ég myndi vilja að þau myndi samþykkja og þetta væri ekki það mikið mál. Það er alveg gott að þurfa ekki að vakna snemma en þetta er leiðinlegt ástand.“
nemandi í 4. bekk í Kársnesskóla.