Rahu hefur legið nú í rúmt ár á vettvangi frama og atvinnumála en Rahu er talinn ná miklum styrk í þessu húsi en sökum eðlisfars líklegur til að skapa þér nýjan farveg í atvinnumálum (nýtt starf eða starfsvettvang). Rahu styður einnig óhefðbundnar eða óvenjulega nálgun til starfs og þú gætir farið að starfa við einhverja nýbreytni. Rahu gefur vissan eldmóð sem er mjög skemmtilegur í tíunda húsi frama og gæti ausið þig einlægum og mögulega áráttukenndum áhuga á starfi og orðstír. Rahu getur þó í sinni veikustu birtingarmynd skapað óstöðugleika og ótta og það gerir hann þegar hann er veikburða í þínu fæðingarkorti.

Aðalpláneta meyjunnar hefur nú í júní tekið höndum saman við Rahu og mun efla þessi áðursögð áhrif til muna. Nýir og árangursríkir viðskiptasamningar eru líklegir, skemmtileg viðskipti, samskipti, skrif eða ræðuhöld munu einkenna júnímánuð. Þú færð viðurkenningu og upphafningu fyrir færni, greind og útsjónasemi.

Venus er einnig í gríðarlegum styrk í júní en liggur í níunda húsi. Mikil leiðsögn eða handleiðsla kvenkennara mun taka birtingu í lífi þínu. Handleiðsla sem setur hlutina í samhengi og styður við tilfinningalegan stöðugleika, tilgang og stefnu. Stuðningur gæti einnig birst í mat, nautnum og munaði.