Körfuboltagoðið Michael Jordan hefur verið duglegur við að láta gott af sér leiða á undanförnum árum. Á síðasta ári opnaði hann heilsugæslustöð í Charlotte í Norður-Karólínufylki sem bar nafnið Michael Jordan Family Medical Clinic, og núna hefur hann opnað aðra eins, í öðru hverfi borgarinnar.

Markmiðið er einna helst að veita læknisþjónustu efnalitlum einstaklingum sem eru annað hvort lítið tryggð eða ótryggð alls. Stöðin, sem byggð var með 7 milljón bandaríkjadala styrk frá Jordan, býður eins og sú fyrri upp á stuðning við andlega heilsu og félagsleg málefni — eitthvað sem er sérstaklega þarft nú þegar COVID-19 ástandið hefur breikkað mismuninn á læknisþjónustu milli efnahagsstétta eins og raun ber vitni.

„Ábyrgðin sem Michael Jordan hefur kosið að axla á því að bæta heilsu samfélags okkar á sér djúpar rætur,“ sagði Carl Amato, forstjóri Novant Health, samstarfsaðila Jordans í framtakinu. „Fyrsta stöðin hefur haft talsverð áhrif, og ef við höfum lært eitthvað af COVID-19 þá er það mikilvægi þess að hafa aðgang að öruggri og skilvirkri læknisþjónustu á svæðum þar sem þess er mest þurfi.“

Á sínu fyrsta ári hefur Michael Jordan Family Medical Clinic tekið við yfir 3350 sjúklingum, þar á meðal 450 börnum. Af þeim fengu nær 700 ráðgjöf hjá félagsráðgjafa stöðvarinnar og nær 80 fengu tilvísun í frekari sálræna aðstoð. Í apríl fór stöðin að leggja áherslu á COVID-19 mælingar, og síðan þá hefur starfsfólk hennar framkvæmt næstum 14.000 próf.

„Þegar við komum saman síðasta haust til að opna fyrstu stöðina hefði enginn getað séð fyrir að við myndum lenda í heimsfaraldri aðeins fimm mánuðum síðar,“ sagði Jordan í Zoom-samtali. „Ég er mjög stoltur af jákvæðu áhrifunum sem stöðin okkar hefur haft á samfélagið hingað til, sérstaklega yfir COVID-19 tímann.“

Sjáið brot úr samtalinu hér: