Söngkonan Miley Cyrus segir frá skringilegri og óhugnalegri lífsreynslu í viðtali við tímaritið Interview, en í viðtalinu fullyrðir hún að hún hafi séð geimveru.

„Ég var að keyra um San Bernadino með vini mínum og einhvers konar fljúgandi furðuhlutur elti mig. Ég er nokkuð viss um það sem ég sá,“ segir Cyrus.

Söngkonan bætir við að hún hafi keypt grasvax rétt áður en hún sá furðuhlutinn, en grasvax er eitt sterkasta form af marijúana sem hægt er að fá sér, en vaxið er reykt til að komast í vímu eða lina sársauka. Hún játar því að það gæti verið víman af grasvaxinu hefði ruglað skynjun sína. Cyrus man hins vegar mjög vel eftir atvikinu.

„Besta leiðin til að útskýra það sem ég sá er að þetta var eins og fljúgandi snjóplógur. Það var stór plógur fyrir framan mig og hann var gulur og glóandi,“ segir hún. „Ég sá hann fljúga og vinur minn sá það líka.“

Cyrus segist hafa séð veru sitjandi í „snjóplóginum“.

„Hún horfði á mig og augu okkar mættust. Ég held að það hafi fengið mest á mig, að horfa í augun á einhverju sem ég botnaði ekkert í. Ég var í áfalli í fimm daga. Þetta var mikið áfall.“

Söngkonan segir þetta atvik hafa dregið dilk á eftir sér.

„Ég get ekki horft á himininn á sama hátt. Þessi vera gæti komið aftur.“

Cyrus er langt frá því að vera eina stjarnan sem trúir á geimverur. Nýverið lýsti tónlistarmaðurinn Post Malone því í hlaðvarpinu The Joe Rogan Experience að hann hafi séð geimveru í New York, Utah og Kaliforníu.

„Ég var með fjórum öðrum manneskjum og þær sáu það líka.“

Þá sagði leikkonan January Jones frá því í þætti Jimmy Kimmel í janúar að hún hefði séð fljúgandi furðuhlut í Iowa.

„Þetta var klárlega geimskip. Eða stjörnuhrap.“