Tannkrem á bólur.

Ég er ein af þeim sem fæ reglulega stóra bólu á andlitið þá sérstaklega þegar ég er að fara eitthvað fínt. Ég hef prufað allskonar efni sem eiga að „drepa“ bóluna, en það besta sem ég hef notað er tannkremið. Tannkremið þurrkar og sótthreinsar bóluna. Best er að geta sett það á kvöldið áður og leyfa tannkreminu að liggja á yfir nóttu. Ég mæli með að reyna að bera tannkremið aðeins á bóluna sjálfa sérstaklega ef húðin er viðkvæm og þurr til að erta ekki svæðið í kringum bóluna að óþörfu. Til að vinna á erfiðum fílapenslum er sniðugt að blanda saman smá salti og tannkremi og bera á fílapensla, leyfa því að liggja á í 10 til 15 mínútur og skola svo af.

Heimagerður kaffiskrúbbur

Það eru ótal kostir við það að nota kaffiskrúbb. Hann meðal annars eykur blóðflæði, stinnir húðina og dregur þannig úr appelsínuhúð, tekur dauðar húðfrumur, dregur úr bólgum og roða og er því góður gegn bólum og húðin verður endunærð og mjúk. Það má nota hann bæði á andlit og líkama og hann er ofureinfaldur að búa til.

Kaffiskrúbbur

Einn bolli malað kaffi
Þrjár matskeiðar gróft salt eða sykur
Fimm til sex matskeiðar kókosolía eða ólífuolía
Blandað saman og sett í krukku. Ég bæti oft við sítrónusafa úr ferskri sítrónu eða dropa af ilmolíu, til dæmis eins piparmintu, lavender eða eucalyptus. Ef nota á skrúbbinn í andlitið þá þarf að fara varlega í ilmolíurnar, ég mæli með að sleppa þeim og nota þá frekar sítrónu.

Andlitsmaskar

Það þarf ekki alltaf að eyða stórfé eða fara langt til að eiga góða maska. Oft nægir að fara í eldhúsið og þar er hægt að finna allskonar í góðan maska. Ég set nánast alltaf sítrónu í mína maska til að fá meiri ljóma í húðina.
Egg er hægt að nota í allskonar blöndur, þá sérstaklega fyrir blandaða út í feita húð og húð sem er gjörn á að fá bólur.

Maski fyrir feita húð

Ein eggjahvíta
Safi úr hálfri sítrónu
Píska saman þar til blandan verður stíf, smyrja svo á andlit og láta liggja á húðinni í 10 til 15 mínútur

Maski fyrir húð sem er gjörn á að fá bólur

Eitt egg
Tvær matskeiðar af hreinni jógúrt
Nokkrir dropar af ferskri sítrónu
Þessu blandað vel saman og látið liggja á húðinni í 15 til 20 mínútur

Maski til að mýkja og gefa húðinni raka

Sirka ¼ af linum avokadó, stappa hann þar til hann er laus við alla kekki
Ein teskeið hrein jógúrt
Ein teskeið hunang
Hér má líka setja sítrónu.
Þessu blandað öllu saman og borið á húðina og leyft að liggja á húðinni í 10 til 15 mínútur eða þar til maskinn hefur þornað.

Til að fá sem mestu virknina úr þessum möskum mæli ég með að hreinsa vel húðina áður og skrúbba, t.d. með heimagerðum kaffiskrúbb, og nota gott rakakrem eftirá.

Augnmaskar

Það er frábært að setja kaldar gúrkur eða kaldar kartöflur á þreytt og bólgið augnsvæði. Bæði hafa þau þann eiginleika að minnka bólgur og poka, og geta einnig dregið úr baugum og hrukkum séu þau notuð reglulega. Mjög einfalt er að skera niður gúrku og skella á augun eða rífa niður kartöflu. Kartöflur haldast lengur kaldar en gúrkur.

Hármaskar

Hér áður fyrr var notast við kúahland við að þvo og styrkja á sér hárið og gaf kúahlandið góðan glans. Kannski ekki aðferð sem margir vilja nýta sér í dag en hér fyrir neðan eru aðferðir við að styrkja, mýkja og hreinsa hárið án þess að nota hland.

Bjór og pilsner í hárið

Til að styrkja og fá fallegan glans í hárið er gott að nota bjór eða pilsner í hárið. Mér finnst best að þvo hárið fyrst, hella svo yfir það bjór eða pilsner leyfa því að liggja í hárinu allavega 10 mínútur, má vera lengur, skola og setja svo góða djúpnæringu og leyfa henni líka aðeins að liggja.

Ef þú átt banana sem er kominn á síðasta séns er upplagt að nota hann í hárið. Bananar eru stútfullir af vítamínum sem eru góð fyrir hárið og mýkir það. Ekki skemmir fyrir hvað það er einfalt að búa hann til, stappa þroskaðan banana og ef þú átt er gott að skella smá nýmjólk og hunang með. Væri t.d. upplagt að gera þennan eftir bjórinn.

Ef þú lumar á einhverjum skemmtilegum heimaráðum og langar að deila þá máttu endilega senda á mig línu á svavam@gmail.com eða instagram @svavasminka.