NASA-geimfarinn Kate Rubins sagði við Associated Press á föstudag að hún hygðist nýta sér kosningarétt sinn úr geimnum, meira en 300 kílómetrum fyrir ofan sjávarmál.

Rubins er stödd á Star City þjálfunarsvæðinu fyrir utan Moskvu í Rússlandi, þar sem hún undirbýr nú ásamt tveimur öðrum geimförum brottför um miðjan október til alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Munu þau dvelja þar í hálft ár.

Þó flestir bandarískir geimfarar búa í Houston og kjósi þaðan, þá gera lög í Texas þeim kleift að kjósa úr geimnum með rafrænni atkvæðagreiðslu. Geimferðamiðstöðin sendir kjörseðilinn til geimstöðvarinnar og miðlar atkvæðinu svo til yfirvalda.

„Það er mikilvægt að taka þátt í lýðræði okkar,“ sagði Rubins. „Við teljum það heiður að fá að kjósa úr geimnum.“

Rubins varð fræg árið 2016 fyrir að verða fyrsta manneskjan til að stunda DNA-raðgreiningu í geimnum. Hún ætlar að þessu sinni að vinna að hjarta- og æðatilraunum ásamt frumeindarannsóknum.

Meðan á vistinni stendur mun stöðin fagna 20 ára afmæli samfelldrar mannvistar um borð, og síðan taka vel á móti áhöfn annarrar SpaceX flaugarinnar, sem búist er við að komi seint í október.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir alla að kjósa,“ sagði Rubins. „Ef við getum gert það úr geimnum, þá tel ég að fólk geti líka gert það frá jörðu niðri.“